Undir lok 17. aldar í Salem í Massachusetts, BNA myndaðist ofsahræðsla meðal strangtrúaðra þorpsbúa. Önnur hver sem óhlýðnaðist eða brást orði Guðs lá undir grun um að vera hryllileg norn sem hafði það eitt í huga að steypa samfélaginu á hvolf og veita kölska umboðið í ríki Guðs.

20 “nornir” voru teknar af lífi í fárinu á meðan 10 sinnum fleiri en það voru ásakaðir.

Sannleikur málsins er eflaust ekki eins áhugaverður og sögurnar sem spruttu þaðan, því nornafárið í Salem hefur orðið innblástur margra frábærra hryllingssagna bæði í prenti og kvikmyndum þar sem nornirnar voru ekki aðeins verið ósviknar heldur einnig rammgöldróttar með mætti skrattans og lögðu bölvanir á ásækjendur sína og alla þeirra afkomendur.

Í The Lords of Salem sýnir leikstjórinn Rob Zombie okkur stuttlega þá hlið á fárinu sem er líklega hvað vinsælust í minni almennings og Hollywood áður en hann flytur okkur nokkur hundruð árum nær nútímanum og að Heidi Hawthorne, leikinni af Sheri Moon Zombie (eiginkonu Rob). Heidi er meðstjórnandi í vinsælum útvarpsþætti og lifir lífinu rólega í bata eftir toll eiturlyfjafíknar, en þegar hún fær í hendurnar vínylplötu með dularfullri tónlist og gömlu konurnar á neðri hæðinni fara skyndilega að hnýsast í kringum hana fara gamlar hvatir brátt að segja til sín.

Fyrri mynd Zombie, Halloween II (2009) risti í sálina með ljótu ofbeldi og spíral söguhetjunnar niður í myrkur og hrörnandi geðheilsu. The Lords of Salem nær svipuðum endum, þó ekki á eins grófan hátt, hún breiðir heldur út faðminn og býður þér inn í heim þar sem huglæg óeirð og rökleysi ráða ríkjum. Útlitshönnun myndarinnar aukar síðan áhrifin enn frekar og líkt og áður berar Zombie hiklaust aðdáun sína á myndum Tobe Hooper, Stanley Kubrick og Ken Russel sem og áhrif frá þýska expressjónismanum og exploitation tímabili áttunda áratugsins, en tekst að þræða þetta allt saman á sinn sérvitra hátt á meðan meðan klisjur hryllingsgeirans eru í jöfnum mæli virtar og snúið á hvolf.

Þrátt fyrir að Rob Zombie sé í raun mesta ljúfmenni þá er heimur kvikmyndanna hans vonlaus og sorglegur staður þar sem illskan sigrar hið góða, gömul sár gróa aldrei til fulls og fjölskyldutengsl eru nær fangelsi en samastað. Laurie Strode og Heidi Hawthorne falla þannig báðar undir þunga fortíðarinnar og illskunnar sem vill gleypa allt sem er gott í þeim sér til hagnaðar. Hægt og rólega svipta nornirnar og fíknin Heidi frumkvæðinu og sjálfinu þannig að framvinda sögunnar verður eins og martröð sem lamar dreymandann af ótta.

Þessi saga ætti ekki að hljóma of ókunnung aðdáendum David Lynch og Twin Peaks, en í myndinni Fire Walk With Me (1992) berst Laura Palmer fyrir sál sinni, bæði gegn öflum sem eru henni æðri og við sína innri djöfla. Örlög Heidi eru ekki eins hrottaleg og hjá balldrottningunni (endirinn ratar meira í áttina að íbúðar-þríleik Roman Polanski), en báðar verða þær að bráð illra afla sem heimurinn í kringum þær hunsar eða skilur ekki.

„Falling in space… faster and faster. And for a long time you wouldn’t feel anything. And then you’d burst into fire. Forever… and the angels wouldn’t help you. Because they’ve all gone away.“

Sheri Moon Zombie er síðan fullkominn hýsill harmleiksins og leikur Heidi alveg frábærlega. Vitandi að Zombie hefur gott auga fyrir útlit þá kemur heldur ekki á óvart að hönnunar- og búningadeildin hafi slegið líka alveg í gegn, en klæðaburður Heidi grípur ávallt augað innan um jafnvel skrúðugustu settin, sem gefur henni aukinn persónuleika.

Þó svo ég mæli einnig með henni óbundið árstíma, þá finnur þú varla betri mynd frá þessum áratug til að fagna hrekkjavökunni en The Lords of Salem. Drungalegar haustnætur á yfirgefnum götum, súrrealískar martraðir útataðar krípí nornum og settum sem myndu láta Dario Argento roðna, megintónlistarstef sem gæti vel verið andsetið af myrkraprinsinum sjálfum… Zombie hjónin bjóða upp á allt þetta í viðbót við ókyrrðina sem situr eftir og heldur þér fast löngu eftir að síðasti rammi myndarinnar hefur dofnað í svart.

Tilvalið í anda októberloka.