Hugmyndir og hugmyndafræði “Looking for Oum Kulthum” eru aðlaðandi rétt eins og útlit myndarinnar og fallegur menningararfur, en hún fjallar um skálduðu leikstýruna Mitru sem hyggst gera kvikmynd um eina goðsagnakenndustu söngkonu arabaheimsins, Oum Kulthum. Sem kvikmynd innan í kvikmynd, þrátt fyrir áhugaverða hugmynd á frásagnarformi, virðist verkið samt taka sér full mikið fyrir hendur og samfléttandi söguþræðirnir ná hvorugir raunverulegu flugi. Heillandi þemu eins og stéttaskipting, fjölskyldufórnir, feðraveldiskúgun og sjálfskoðun eru öll kynnt fyrir, en halda veiklulega í hvort annað án þess að skapa með sér fullnægjandi heild.

Eitt helsta vandamálið felst í því hvernig aðalpersónan Mitra, kvenkyns leikstjóri sem er í stöðugri baráttu við feðraveldið sem hún vinnur í, kemur hvorki út sem sterk né sérstaklega sjálfstæð, heldur gríðarlega meðfærileg. Nú á ég ekki við það að hún ætti ekki að mega sýna tilfinningar, til dæmis þegar hún tekur sér frí frá tökum til þess að leita uppi son sinn, heldur virðast tilfinningar hennar mótast alfarið af duttlungum annara, sem mér þykir hljóti þá að stafa af brotakenndu handritinu.

Myndarinnar er hægt að njóta fyrir hugmyndir hennar á einn bóginn, og framsetningu hennar á hinn; þar sem hún er einkar falleg útlits og barmafull af mikilsvertri þjóðartónlist, en ekki jafn mikið fyrir samspilið þar á milli. Hafandi sagt það, viðurkenni ég fúslega að heimur myndarinnar er mér framandi og söngkonan sem hún fjallar um er mér óþekkt, þannig að ef til vill vantar hjá mér mikilvægan bút í púsluspilið. En þeir bútar sem mér fannst ég skilja eða þekkja til, eins og að vera kona í karlastarfi eða að sakna fjölskyldu sinnar, komu sér samt ekki til skila með fullnægjandi hætti.