tolkienEftir sex risastórar kvikmyndir byggðar á þekktustu sögum höfundarins J.R.R. Tolkien, hafa framleiðendurnir Robert Shaye og Michael Lynne ákveðið að vaða í sína næstu stóru áskorun, sem heldur í svipað þema.
Nei, þetta verður ekki Silmirillinn, heldur ævisaga höfundarins, enda maður sem átti alls ekki óviðburðaríka ævi.

Hermt er eftir að þessi ævisaga verði einfaldlega kölluð Middle Earth, og Downton Abbey leikstjórinn James Strong mun sitja við stjórnvölinn. Handritið verður skrifað af Angus Fletcher, sem er sagður hafa legið yfir gömlum viðtölum við Tolkien í tæplega 6 ár til þess að undirbúa þetta verkefni.

Middle Earth verður epísk saga um líf Tolkiens fyrir og eftir stríð. Farið verður í gegnum það hvernig hann kynntist eiginkonu sinni, Edith Bratt, og þau fjögur ár sem hann eyddi í fyrri heimsstyrjöldinni. Stríðsárin vöktu mikinn innblástur hjá honum til þess að skrifa sögurnar um Miðgarð. Aldrei er að vita nema þessi bíómynd muni kynna gamlan félaga Tolkien til leiks, C.S. Lewis sem skrifaði Narniu-bækurnar.

Ekki er vitað enn hver gæti komið til með að leika Tolkien, en áður en meira skýrist má velta lengi fyrir sér hver líkist kallinum nógu mikið til þess að koma til greina.

 

Hljómar allavega spennandi. Vonum bara að þetta verði ekki skyndilega breytt í þríleik í miðri framleiðslu.