The Big Lebowski þarf varla að kynna fyrir nokkrum kvikmyndaáhugamanni, sem þýðir að hinn óviðjafnanlegi Jesus Quintana þurfi heldur ekki á mikilli kynningu að halda. En á meðan Dúddistar og Lebowski-tilbiðjendur annaðhvort gleðjast eða syrgja þá tilhugsun að það komi líklegast aldrei framhaldsmynd, þá þýðir það ekki að Jesús geti ekki látið sjá sig aftur í náinni framtíð.

Þannig er akkúrat orðrómurinn.

Hermt er eftir að John Turturro sé í tökum akkúrat um þessar mundir á sannri indí-mynd (hún hefur ekki einu sinni enn fengið dreifingaraðila) sem byggð er á frönskum farsa frá 1974 að nafni Les Valseuses, Going Places á enska málinu. Fróðlegt verður að sjá hvernig útkoman á þessu verður með „Hey-Sús“ Quintana í forgrunni enda bíómynd sem Roger Ebert sagði á sínum tíma að væri löðrandi í kvenfyrirlitningu, eða eins og hann orðaði það: „…the most misogynistic movie I can remember; its hatred of women is palpable and embarrassing.“

Turturro leikstýrir víst og skrifar sjálfur handritið að nýju myndinni en ásamt honum verða Bobby Cannavale, Audrey Tautou og Susan Sarandon einnig með hlutverk í myndinni.

Coen-bræðurnir koma ekkert nálægt þessari ‘spinoff’ mynd en miðað við það hversu góð tengslin hafa hingað til verið á milli þeirra og Turturro er fastlega gert ráð fyrir því að Going Places hafi blessun þeirra.