Stutta útgáfan: Spennuleysi og furðulegt flæði koma ekki í veg fyrir góða skemmtun þökk sé flottum frammistöðum flestra, hressandi stíl og nokkrum úrvalssenum ásamt tilfinningakjarna sem virkar.

Langa útgáfan:

Eftir 24 ára langan feril sagði Steven Soderbergh skilið við bíómyndaheiminn árið 2014 með myndinni “Side Effects”. Hann sagði ástæðuna vera hvernig hlutunum væri háttað í Hollywood og að leikstjórar og verk þeirra fengu slæma meðhöndlun. Það tók hann þó ekki langan tíma að snúa aftur. Guð, eða nýja dreifingarplani Soderbergh, sé lof.

Logan Lucky fjallar um Logan-bræðurna, Jimmy og Clyde, sem ákveða að ræna NASCAR-keppni eftir að fyrrverandi eiginkona Jimmy, Bobbie Jo, hyggst flytja til annars fylkis með dóttur hans. Jimmy vantar því pening fyrir lögmanni og þaðan fer boltinn að rúlla. Fleiri litríkar persónur bætast við söguna og ber helst að nefna Joe Bang, sprengjusérfræðing teymsins. Daniel Craig fer með það hlutverk og hefur ekki verið skemmtilegri í mörg ár. Textinn er hins vegar kærkomin þökk sé þykka Suðurríkja-hreimsins hans.

Logan Lucky er með það einfaldan söguþráð að hún leyfir sér að taka teygða útúrsnúninga sem hafa ekki mikið með aðalplottið að gera. Þetta sleppur að miklu leyti enda um skemmtilega útúrsnúninga að ræða (“The Bear” senan trónir á toppnum). Það hefði auðveldlega verið hægt að klippa út allt tengt Seth McFarlane, Sebastian Stan, Katherine Waterston og Hilary Swank án mikilla afleiðinga. McFarlane, með hrikalegan hreim sem minnir á Stewie Griffin, og Swank, með sinni vélmennaeftirhermu, mættu helst hafa lent á klippigólfinu. Soderbergh hefur minnst á plön um þríleik um Logan fjölskylduna og áhugavert var að sjá “sequel bait” í mynd af þessum toga en það útskýrir allavega stutta viðkomu Waterston, eins sjarmerandi og hún er.

Soderbergh hefur, sem áður, gott auga fyrir hlutunum. Suðurríkjaheimur myndarinnar kemur vel til skila og löng skot leyfa okkur að detta náttúrulega inn í söguna. Peter Andrews nýtur sín á bakvið kameruna og minnir óneitanlega á Coen-myndirnar, sérstaklega í samtalssenum og nærskotum. Mary Ann Bernard fær svo prik í kladdann fyrir klippinguna. Glöggir kvikmyndaáhugamenn og Soderbergh-aðdáendur (Soderheads?) hafa væntanlega tekið eftir því að þessi nöfn eru uppspuni. Soderbergh sá um leikstjórn, upptöku og klippingu en notast við önnur viðurnefni. Handritshöfundurinn, Rebecca Blunt, er einnig ráðgáta þar sem þetta er fyrsta handritið hennar skv. IMDb og leikararnir segjast aldrei hafa hitt hana, einungis gegnum tölvupóst. Það er aldrei að vita nema Soderbergh hafi líka komið að því.

Hægt er að eyða fleiri málsgreinum í galla myndarinnar svo sem misjafnt flæði þar sem aðalpersóna hverfur í gott korter á meðan önnur meginpersóna birtist ekki fyrr en fjórðungur er eftir. Það væri þó ekki lýsandi fyrir myndina þar sem hún er langt frá því að vera slæm. Frammistöðurnar eru allar þrælskemmtilegar (mínus McFarlane og Swank). Myndin er fljót að koma sér af stað og getur oft verið mjög fyndin. Húmorinn kemur helst frá eiginleikum persónanna, eins og siðferðiskennd Bang-bræðranna og löngunar nýs eiginmanns Bobbie Jo til að vera “alvöru karlmaður”. Sérvitru persónurnar, þótt flestar einvíðar séu, eru helsti kostur myndarinnar því það er einfaldlega of skemmtilegt að fylgjast með þeim. Hvort við séum að hlæja með þeim eða að þeim, það er fremur óljóst. Sambandið milli Jimmy og dóttur hans er síðan afar sætt og gefur myndinni eitthvað tilfinningagildi. “Country Home” senan ætti að hreyfa aðeins við öllum, svo lengi sem þú ert ekki með stálhjarta.

Þetta er enginn “Ocean’s” en skemmtileg er hún. Meiri áhersla á Logan-bræðurna væri vel þegin, þá helst á bakvið ránið, sérstaklega Clyde. “Þarf pening fyrir lögmann” er örstutt “throwaway” lína sem fer aldrei neitt lengra. Stemningin er góð, þ.e. hressandi músík og sniðugar ránssenur sem hefðu mátt vera ögn meira spennandi. Logan Lucky er alls ekki eftirminnileg en hægt er að mæla með henni. Kvikmyndir þurfa ekki allar að vera meistaraverk. Stundum er nóg að fá eina gallaða en stórskemmtilega og það er alveg klárt mál að þetta sé næstbesta “Logan” mynd ársins.