Einn áhugaverðasti og skemmtilegasti leikstjórinn í dag hefur svo sannarlega ekki sungið sitt síðasta eftir fíaskó seinasta árs varðandi Ant-Man framleiðsluna. Hann hefur nú formlega gengið til liðs við draumaverksmiðjuna í tunglinu (Dreamworks).

Fyrir Dreamworks mun Edgar Wright leikstýra og skrifa handritið að nýrri teiknimynd sem fjallar um skugga. Með honum í handritasmíðinni er enginn annar en David Walliams („Computer says no“…). Þó þeir sjái um að skrifa orðin á blaðsíðunni þá er hugmyndin ekki ný af nálinni. Dreamworks hefur áður reynt að koma þessari
hugmynd á hvíta tjaldið og kallaðist verkefnið þá Me and My Shadow.
me-and-my-shadow-poster-463x600

Sagan fjallar um fastan skugga sem þráir spennandi og skemmtilegt líf en er fastur við Stanley Grubb, hundleiðinlegasta mann veraldar. Myndin hefur átt lengri meðgöngutíma en margar en í upphafi átti Mark Dindal (leikstjóri Emperor’s New Groove) að leikstýra þá blendnu verki af tölvubrellum og handteiknuðum myndum. En af ýmsum ástæðum festist hún í þessu klassíska framleiðslu-limbói. Þegar myndin var endurvakin átti hún að koma út í nóvember 2013 og þá undir stjórn Alessandro Carloni (höfuðpaur í handritsgerð How to Train your Dragon) en eftir seinkanir var verkefnið sett á ís enn einu sinni.

Wright tók víst spenntur við þessu verkefni og mega aðdáendur hans búast við þessari skrautlegu teiknimynd eftir að hann hefur gengið frá kómísku glæpamyndinni Baby Driver, sem er nú í vinnslu og væntanleg á þarnæsta ári. Þar fara Ansel Elgort (The Fault in Our Stars), Jon Hamm og Lily James með helstu hlutverk.

Ekki er vitað hvernig Wright-útgáfan af Me and My Shadow verði eða hvort hún viðhaldi einu sinni því heiti. Búast má vonandi við líflegri tónlistarnotkun og meira af þessu klassíska sjónræna gríni sem leikstjórinn gerir svo vel.