Nóg er framundan hjá Marvel stúdíóinu, og það er að frátaldri Avengers-sprengjunni sem búast má við sumarið 2018. Næst í röðinni er Spider-Man: Homecoming í júlí, síðan Thor: Ragnarök í vetur og eftir það – í febrúar á næsta ári – stekkur Svarti pardusinn upp á hvíta tjaldið í sinni eigin sjálfstæðu mynd.

Chadwick Boseman fær formlega að stíga í sviðsljósið sem ofurþjarkurinn T’Challa, konungur Wakanda og óheflaður stríðsmaður (með aðstoð Víbraníum-búningsins síns). Myndin er leikstýrð af Ryan Coogler (Fruitvale Station, Creed) – og nú er kominn fyrsti tíser.

Lúkkar prýðilega.

Með önnur hlutverk fara Michael B. Jordan, Lupita Nyong’o, Martin Freeman, Daniel Kaluuya, Angela Bassett, Forest Whitaker og Andy Serkis.

 

Black Panther lendir 16. febrúar 2018.