Ég sá fyrst „Killing Them Softly“ þegar hún kom út fyrir þremur árum og hún skaraði mikið fram úr fyrir mér sem ein af eftirminnilegustu myndum síns árs. Hún var gróf, vel leikin, stílísk og viðurstyggileg á köflum. Hún er þar að auki ein stór samlíking við efnahagshrunið frá árinu 2008.

Killing-Them-Softly-2012Tónninn er strax gefinn og viðeigandi í byrjuninni á Killing Them Softly. Hún notast við óreglulega ryþmaklippingu. skiptist á milli þess að sýna bakið á smákrimmanum Frankie (Scott McNairy) undir ódiegetískri ræðu hjá Barrack Obama í bakgrunninum með ambient-hljóði.  Klippingin er hröð, óregluleg og þegar allt af þessu blandast saman heldur tónlistin enn áfram að vera óregulega sett saman. Á meðan gengur Frankie framhjá stórum auglýsingaskiltum sem sýna forsetaframbjóðendur Bandaríkjanna frá 2008: Obama og John McCain.

Þessi byrjun skapar samanburð innihaldsins við efnahagshrunið með áherslu á forsetaframboðið. Samanburðurinn er mjög skýr út alla myndina, allavega á yfirborðinu. Við heyrum reglulega upptökur af ræðum og kjaftagangi forsetaframbjóðendanna og annarra í sambandi við hrunið. Margir gagnrýndu þessa mynd fyrir að vera of augljós með þessa allegoríu og hamra of sterkt á henni. Sama hversu mikið ég finn af skörpum undirtónum þá er þessi gagnrýni sanngjörn að mörgu leiti, en samt sem áður er athyglisvert að túlka þennan samanburð út frá t.d. sjónarhornum og hlutverkum karakteranna.

Killing Them Softly fjallar um þrjá smákrimma; Frankie, Russell (Ben Mendelsohn) og Squirrel (Vincent Curatola) sem ræna varið pókerspil hjá mafíósum. Jackie Cogan (Brad Pitt), er ráðinn til að koma reglu aftur í kerfið og fær með sig annan leigumorðingja, Mickey (James Gandolfini) til að myrða ræningjana og Markie Trattman (Ray Liotta) sem sér um pókerleikina.  Aðeins í endanum sýnir einhver af karakterunum athygli gagnvart ræðunum, þegar Cogan og bílstjórinn (Richard Jenkins), milliliður mafíunnar, rökræða hvort Bandaríkin byggist á samfélagi, þar sem allir eru einn, eða efnahagsbundinni einstaklingshyggju. Annars staðar í myndinni er athygli einstaklinganna það lítil að það hefði engu breytt þó ræðurnar hefðu ekki verið blóðtengdar innihaldinu. Ræðurnar eru ekkert annað að tól sem passa ekki við þann heim sem myndin gerist í, ekkert annað en tilgerðilegheit.

Eftir ránið þarf að ná að byggja upp traust svo að mafíósarnir vilji spila aftur. Allar áætlanir og aðgerðir eru á bak við tjöldin; fáir einstaklingar vita hverjir eru sekir, fáir eru vitni af ofbeldi myndarinnar og þú færð það sem þú átt skilið, sama hversu samvinnufús þú ert. Myndin er mest megnis samtöl á milli tveggja eða þriggja einstaklinga sem hafa upplýsingar sem annaðhvort þeir einir eða fáir vita af. Bílar eru áberandi mikið notaðir til að undirbúa og framfylgja áætlunum enda góð og róandi kyrrð inn í þeim.

Allegoríur myndarinnar koma líka fram hjá karakterum eða ákveðinni stöðu sem fólk er í. Þeir sem ullu efnahagshruninu eru túlkaðir sem mafíósarnir að spila póker. Tilgangurinn er að græða eins mikið og hægt er með því að nota djarfar aðferðir. Þeir vita ekki hverjum er treystandi og reiða á sína eigin heppni. Bílstjórinn gæti verið túlkaður sem ríkisstjórnin: Hann er alltaf sitjandi, ekki sýndur sem heill einstaklingur. Hann vinnur á bak við tjöldin og ræður aðra einstaklinga til að sjá um vandamálin sín, í þessu tilfelli leigumorðingjar.

44-killingthemsoftly

Mickey og Cogan fylgja sínum eigin reglum en á endanum er það einungis Cogan sem nær að gera verkið, sama hvort það var rétt eða ekki. Hann gerir sitt til að viðhalda kerfinu, sama hvort þeir sem hann drepur eru sekir eða ekki. Trattman, t.d. er saklaus en hafði rænt pókerspilið áður svo hann þarf að vera dreipinn til að byggja traust. Mickey, hinsvegar, er latur, eigingjarnt fífl sem virkar meira eins og hindrun fyrir Cogan, og er séð til þess að hann sé handtekinn í endanum. Einn af þjófunum, Russell, er líka handtekinn af lögreglunni vegna halds á heróíni. Hluti af vandamálinu er leystur með þessum lausnum en stórt réttlæti er ekki til staðar. Kaldhæðnislega er það einungis dópmál sem fær athygli lögreglunnar í allri myndinni.

Ég hef lesið pælingar gagnvart Mickey og Cogan og hvað þessir tveir merkja. Sumar líta á þá sem fjármálaeftirlitið; spilltir einstaklingar fengnir til að setja sama kerfið aftur í gang. Aðrir hafa borið þá saman við Obama og McCain, tvo ólíka einstaklinga með mismunandi aðferðir og mun annar af þeim sigra hinn. Á þann hátt getur bílstjórinn líka táknað kjósendur sem kýs á endanum annan af þeim til að sinna verkinu.

Hvorugur af þeim túlkaður sem hetja í myndinni, en vegna þess að myndin er mikið frá sjónarhorni Cogan þá sýnir hún hlutdrægari mynd af Mickey. Reyndar er enginn karakter sýndur á jákvæðan hátt, í mesta lagi aumkun. Killing Them Softly sýnir enga aðdáðun gagnvart fólki í undirheiminum. Glæpastarfsemin er sýnd, frá mismunandi karakterum, sem viðurstyggileg, ómórölsk, skipulögð og mjög karllæg.

Cogan_-_Killing_Them_Softly

Ofbeldið hefur keðjuverkandi áhrif í myndinni og kafar hún einnig út í eðli ofbeldis. Ofbeldið viðkemur alltaf karakteranna. Það er líka eftirtektalegt að sjá viðhorf sumra karaktera gagnvart þjórféi, þeir vilja ekki gefa það eða reyna að stela því frá öðrum. Karllægni glæpastarfsemar er líka augljós, en það er aldrei talað um konur á jákvæðan hátt og sú eina sem kemur fram í myndinni er vændiskona sem er lítilsvirt og fær ekki einu sinni nafn.

Það er áreiðanlega hægt að sjá þessa mynd frá mismunandi sjónarhornum, hvað hún raunverulega merkir inn við beinið en sama hvað maður finnur þá hefur maður mynd sem er angandi af andrúmslofti og mjög augljósri pólítískri þemu auk þess að fjalla um græðgi, ofbeldi sem svar við lausnum og að vinna á bakvið tjöldin til að viðhalda stórgölluðu kerfi.