Dagsetningin er 13. mars 1997, klukkan er milli 19:30 og 22:30 og það er myrkur. Íbúar Phoenix, Arizona sjá ljós á himni, sex talsins í V uppsetningu. Samkvæmt vitnum, sem eru talin vera frá 10,000 til 20,000 manns, þá eru ljósin stöðug og óhreyfð.

Engin hljóð gefa í skyn að flugvélar eða þyrlur séu að verki. Atburðurinn er tvöfaldur – Fyrst og fremst eru það ljósin sem sjást á himni, en vitni sjá einnig þríhyrndan hlut á stærð við marga fótboltavelli svífa hægt yfir borgina.

Hluturinn ferðaðist frá Phoenix í næstum 500 km í átt að Tucson, Arizona og skyggði á stjörnurnar þegar hann sveif yfir á hraða sem var of hægur fyrir nokkra flugvél (sem var til á þeim tíma) til að geta náð.

Fönixarljósin er stærsti fjöldahóps-vitnisburður af fljúgandi furðuhlutum í sögu Bandaríkjanna og enn þann dag í dag er óvíst hvað þetta var. Bandarísk stjórnvöld héldu því fram á sínum tíma að þetta væru aðeins herblys, en hverskonar herblys standa kyrr á himni klukkutímum saman? Hvernig geta herblys orðið að stórum þríhyrndum hlut sem svífur hægt yfir borgina og nær að hylja stjörnurnar? Af hverju er vitnisburður svona margra engan veginn í takt við þá útskýringu? Góð spurning.

En það sem kemur mest á óvart við þetta atvik og kom aðeins í ljós fyrir mánuði síðan, er að flugmaður sem var á lofti í kringum Phoenix, meðan þetta átti sér stað, var enginn annar en Kurt Russell, fljúgandi með stjúpsyni sínum Oliver. Kurt heldur því fram í nýlegu viðtali við The One Show að hann og Oliver hafi séð ljósin. Kurt er ekki mjög skýr varðandi það hvað hann sá nákvæmlega annað en ljós og kennir hann lélegu skyggni í myrkrinu um. Flugstjórnin var þó skýr um að engar aðrar flugvélar hefðu verið í loftinu á sama tíma og Kurt, svo það útilokaði fyrirbrigðið sem flugvélar.  Eftir atvikið þá pældu Kurt og stjúpsonur hans, Oliver, voða lítið í þessu, enda hvorugur með mikinn áhuga á fljúgandi furðuhlutum. Tveimur árum seinna sér Goldie Hawn þátt um málið þar sem minnst er á að flugmaður hafi tilkynnt ljósin við lendingu, en þá fattar Kurt að verið sé að ræða um hann.

Fyrir UFO böffs þá er þetta drulluáhugaverð þróun og mjög fjörug saga fyrir alla Kurt elskendur, ég geri auðvitað ráð fyrir að Kurt sé að segja satt eins og virðist vera. Á þessum tíma var Breakdown væntanleg í kvikmyndahús í maí 1997 og Kurt var að undirbúa sig fyrir aðalhlutverkið í Soldier (1998) sem hermaðurinn Todd. Frá 1996-1998 þá eyddi Kurt Russell nánast öllum sínum tíma í ræktinni fyrir þá gleymdu og stórgölluðu schlockveislu. Þessar fréttir eru pottþétt leiðinlega seint að koma í ljós fyrir þá kvikmyndagerðamenn sem hafa gert heimildarmyndir um atvikið án þess að vita að þeir gætu tekið viðtal við Kurt Russell, er það ekki heimildarmyndargull? Ég verð þó að lofa honum fyrir að leysa frá skjóðunni á opinberum vettfangi, ekki allir hafa kjarkinn í að segja frá svona upplifunum. Kurt hefur þó alltaf verið utan Hollywood kerfisins og talinn mikill „rogue“ , sem gerir hann bara svalari.

Það sem gerðist í mars 1997 yfir Pheonix, Arizona er ennþá spurningarmerki. Margir möguleikar liggja á borðinu. Útskýring Bandaríkjastjórnar er einfaldlega ólíkleg, sérstaklega miðað við fjölda vitna. Jafnvel Fife Symington, þáverandi ríkisstjóri Arizona, sem varð vitni að atburðinum, viðurkenndi hann taldi þetta ekki hafa verið blys. Þetta er góð pæling til að velta fyrir sér – Hvað er á stærð við marga fótboltavelli og getur svifið yfir borg án þess að gefa frá sér hljóð? Geimverur? Leynileg tækni frá bandarískum her eða leynisamtökum? Einhver spes tegund af gríðarlega massívum loftbelgi? Margt er mögulegt, en eitthvað gerðist, þetta voru ekki venjuleg herblys og Kurt Russel sá það.

Ef Fönixarljósin verða einhvern tímann kvikmynduð þá krefst ég þess að vitnisburður Kurts verði innifalinn og að sonur hans, Wyatt Russell, leiki hann. Hann lék ungan Kurt nú þegar í Soldier (1998). Hann hefur lúkkið og reynsluna.