“Tveir menn, annar þeirra breskur stríðsmaður, og hinn arabískur, standa í eyðimörk og fígúra nálgast úr fjarska. Þeir eru varir við fígúruna, sem virðist vera maður á hesti. Ljóshærði stríðsmaðurinn og hetja sögunnar, fylgist grannt með aðsteðjandi hættu.”

Persónulega fannst mér skemmtilegra að lesa fjóra ramma heldur en allar þessar setningar.

Flestir eru ágætir í að skilja kvikmyndaformið, að minnsta kosti hvað á sér stað. Við horfum á kvikmyndir frá barnsaldri og eru grundvallaratriðin innbyggð í vitsmunina. Það kunna kannski ekki allir skilgreiningarnar eða hugtökin, en hefðu til dæmis góða tilfinningu fyrir því að þessi tvö skot þýða “Henry Fonda horfir á Clint Eastwood.”

Þetta eru reyndar skot úr tveimur mismunandi kvikmyndum, en rétt eins og að skrifa setninguna með orðum er hægt að tjá sömu skilaboð með þessum tveimur römmum. Hinsvegar, ef manneskja, segjum frá 18. öld, sæi þessar tvær ljósmyndir hefði hann eflaust engann grun um að þær tengdust á neinn hátt. Fyrir honum væru þetta bara tvær ljósmyndir af tveimur mönnum, einn horfir til hægri, hinn til vinstri.

Í bók þyrfti þarna fleiri lýsingar á umhverfi, fatnaði, andstyggilegum svip Fonda, og kærulausu vindlareykingum Eastwoods, en í þessum tveimur römmum er því öllu komið til skila og erum við mjög fær í að ráða úr þeim upplýsingum á augabragði, enda er augað hið allra fremsta skynfæri mannskepnunnar.

Þannig myndrænt læsi er innbyggt í okkur bæði í genin og einnig í uppröðun taugafrumnanna eftir áraraðir af sjónvarpsglápi. Það vantar alls ekki góðan skilning á forminu, og að átta sig á atburðarás í kvikmynd. Það þykir kannski vanta nægan myndrænan lesskilning í hinum almenna áhorfanda til að geta haft gaman af öllum tegundum af kvikmyndum. Það að hafa bara gaman að ákveðnum klassa af myndum gefur til kynna að orðaforðinn er ekki á hærra stigi en það. Það sem betra myndrænt læsi á kvikmyndum gerir manni þá kleift er að njóta kvikmynda betur, í miklu meiri fjölbreytni, og á margvíslegri hátt. Þetta er nákvæmlega það sem bókahöfundar og aðrir talsmenn segja um þeirra eigin listform. Það er ekki fyrr en þú ert góður og æfður í að lesa, þegar þér fer að finnast það gaman. Það sama gildir víst um alla bestu hluti veraldar: rauðvín og bjór, sushi, gufubað, lauk, líkamsrækt, svo ekki sé minnst á allar listgreinar sem til eru. Vill maður virkilega neita sér um þessi gæði veraldarinnar bara því maður hefur ekki gefið sér tímann til að læra að njóta þeirra?

En jafnvel það er umdeilanlegt. Þetta vita margir og það er alveg gríðarlega stór hópur af kvikmyndaunnendum á Íslandi, eins og sést á velgengni Bíó Paradísar og tilvist Bíóvefsins. Það eina sem vantar eru félagslegu viðmiðin til að hnýta þetta allt saman. Það sem þykir nefninlega pottþétt vanta hér á landi er aukin meðvitund um þetta, samfélagslega. Hvort það sé eitthvað sem er mikilvægt er aftur umdeilanlegt, en það væri samt sem áður skemmtilegt. En já, aftur umdeilanlegt. Það væri skemmtilegt “að mínu mati,” Jesús Kristur heilög María móðir Guðs föður sonar.

Ég vil þá einnig taka fram að nú er ég ekki að tala um hvað er rétt og rangt, eða gott eða slæmt þegar um kvikmyndir er að ræða. Ég er enginn meistari í þessum málum, og vil ekki vera að gagnrýna neinar ákveðnar kvikmyndir eða þykjast vita hvað er ‘rétt’ eða ‘vel gert’, og ég er alls ekki að reyna að koma fram punkti um að þú eigir að horfa frekar á þessar myndir en ekki hinar – þvert á móti: horfðu á allt og byrjaðu á því sem er vandað! (Eða ekki; ef þú ert til dæmis manneskja sem bara hatar lauk og gætir aldrei nokkur tímann komið honum inn fyrir varirnar, jafnvel þó hann var eldaður af fagmönnum sem lögðu sér dag og nótt í að gera hinn fullkomna laukrétt, þá er lítið við því að gera. Þitt er tapið.)

Það er þetta viðhorf gagnvart kvikmyndum, að vita og kunna að meta þegar þær eru ekki bara einfaldasta leiðin til að segja sögu á trúverðugan hátt, heldur eitthvað meira. Þegar einhver höfundur, oftast leikstjóri, hefur skapað listaverk sem getur verið jafn persónulegt og bók. Þetta viðhorf er leiðinlega lauslegt í viðmiðum og siðareglum félagslífsins.

Ef um væri að ræða almennt læsi er önnur saga. Lesandi skáldsögu sem annaðhvort kynni varla að lesa, eða hefði ekki gefið sér nægan tíma til að þjálfa sig í skilning og túlkun á rituðu máli í öllum sínum mismunandi formum og uppsetningum til að geta fyllilega dæmt um gæði bókarinnar, yrði hann félagslega hengdur og brenndur á báli – þannig séð. Honum fyndist bókin kannski hundleiðinleg þrátt fyrir að vera þrælvönduð bók skrifuð af mikilli ástríðu, og fólk myndi tjá sig við þennan aðila strax um leið. Honum yrði sagt að gjöra svo vel að rífa sig í gang og læra að lesa betur! Sama gerist dag eftir dag þegar um er að ræða önnur lífsgæði sem krefjast þjálfunar og skilning til að meta og njóta. “Þú ert að missa af aðal stuðinu,” hrópa þeir sem standa á græna grasinu, “rífðu þig í gang!”

Skilningur þykir mikilvægur, að minnsta kosti þegar það kemur að almennu læsi. Það þarf ekki endilega að kunna að skrifa vel, en það þykir mikilvægt að fullorðinn einstaklingur viti að Íslandsklukkan er vel skrifuð og skilji afhverju. Það þykir mikilvægt að kunna að meta það þegar bók er vönduð, og meira að segja þykir það mikilvægt að læsi einstaklinga sé svo þroskað að maður ekki bara skilji og meti, heldur hafi gaman af. Ég hvet til ímyndunar á þeirri aðstæðu þar sem fullorðinn einstaklingur kann ekki að lesa, eða segir að Laxness sökki. Viðbrögðin væru að minnsta kosti “ha? Hvað meinarðu? Þú ert að grínast, er það ekki?” Enda segir enginn svona lagað því félagslega refsingin fyrir að brjóta þessi viðmið fara ekki framhjá neinum.

Það væri gaman ef slík menningargildi ættu einnig við um kvikmyndir.