Kevin Spacey þiggur víst ekki hvaða hlutverk sem er, sem mun gera það enn skrautlegra að sjá hann njóta sín við að raddsetja kött fyrir nýjustu mynd Barrys Sonnenfeld (Get Shorty, Men in Black 1-3, R.V…), Nine Lives. Luc Besson og fyrirtæki hans, EuropaCorp, sér um að framleiða.

Eins grillað og þetta ku allt saman hljóma í fyrstu þá er þetta því miður býsna klisjukennd saga um vinnuþjark sem hefur ekki tíma fyrir fjölskyldu sína og lærir að sjá lífið í nýju ljósi eftir að hann breytist skyndilega í dýrið sem hann þolir minnst í heiminum. Christopher Walken fer einnig með hlutverk sérviturs (auðvitað…) dýrabúðareiganda sem virðist búa yfir einhverjum mystískum töfrum, og nýtur þess greinilega að sjá fjölskyldupabbann þjást og læra lexíu sína sem kisulóra.

Hér er fyrsta sýnishornið:

 

Nine Lives verður frumsýnd í ágúst.

Munum mala af spenningi þangað til…