“Reports of my death have been greatly exaggerated.”

Nú ættu kóngsmenn að kætast því framhaldið af Kingsman: The Secret Service gefur þeirri fyrstu ekki mikið eftir. En er hún betri? Það er mikið lagt í þessa mynd en það skilar sér misjafnlega vel. Við erum með hrúgu af Óskarsverðlaunahöfum (Julianne Moore, Halle Berry, Jeff Bridges, Colin Firth, já og sjálfan Elton John) og þá eru ekki taldir með Taron Egerton, Channing Tatum, Mark Strong og Michael Gambon. Eins skemmtilegir og þessir leikarar eru verður þetta hálfgert overkill, en það eru kostir og gallar við það eins og annað.

Matthew Vaughn er frábær að leikstýra hasaratriðum og hér er hann í banastuði. Myndin er stútfull af skemmtilegum hasar en ég verð þó að segja að hún náði ekki að toppa rosalegustu atriðin (kirkjubardagann, hausar að springa) úr fyrstu myndinni. Þó voru mjög flottar senur sem stóðu upp úr, eins og t.d. skíðalyftuatriðið. Mér finnst hressandi að sjá svona mikið ofbeldi í svona stórri mynd, en það hefur verið eitt af aðalsmerkjum leikstjórans frá því ann gerði Kick-Ass. Svo er líka smá skammtur af dónaskap eins og síðast, þó ekkert sem fer yfir strikið.

Julianne Moore var bara þokkalegt illmenni (ekki mikið meira) en mér fannst aðferðir hennar mjög skrítnar, meira að segja fyrir súper illmenni. Spoiler – af hverju að eitra fyrir viðskiptavinum þínum og mögulega drepa þá? Auk þess fannst mér hún stela frá Jókernum úr Batman frá 1989 þegar hún byrlaði eitri fyrir fólki. Þessi mynd, líkt og sú fyrsta, er stanslaus snarklikkuð WTF skemmtun sem er bara örlítið síðri en sú fyrsta. Vel þess virði að sjá þessa í bíó.

“You know what that means…”

 

Leikstjóri: Matthew Vaughn (Layer Cake, Stardust, Kick Ass, X-Men: First Class, Kingsman: The Secret Service)