“You can’t save the world alone.”

Ég var mjög smeikur við þessa. DC myndirnar eru svo ferlega misjafnar og síðasta innlegg Zach Snyder (Batman v Superman: Dawn of Justice) var ekki beint fullkomið. Ekki bætti úr þegar Empire gaf Justice League 2 stjörnur og myndin er núna með 40% á Rotten Tomatoes. Það gaf hinsvegar von að 85% áhorfenda sem gáfu einkunn á Rotten Tomatoes voru hrifnir af myndinni og myndin er með 7,5 í einkunn á imdb. Það er því ákveðin gjá þarna á milli áhorfanda og gagnrýnenda.

Mér finnst oft fólk og þá sérstaklega gagnrýnendur vera of dómharðir á kvikmyndir. Myndir eins og The Dark Knight og Avengers Assemble hafa spillt okkur og nú gerum við bara kröfu um brjáluð gæði. Það er kannski allt í lagi en það er líka allt í lagi að njóta bara skemmtilegra mynda sem er ekki ætlað að vera mikið meira en góð afþreying. Justice League er hálfgerð ofurhetjufroða en ég verð að segja að ég skemmti mér mjög vel. Hún er betri en Batman v Superman, ekki eins og góð og Wonder Woman og langt frá Avengers Assemble ef það gefur ykkur einhverja hugmynd.

Þessi mynd er auðvitað risastór og hávær en tölvubrellur eru almennt góðar en tölvubreytt efri vör á Henry Cavill truflaði mig alls ekki. Batman og Wonder Woman eru ennþá mjög flott og innkoma Súpermann er hreint út sagt stórkostleg. Nýliðarnir þrír voru allir betri en ég bjóst við en enginn þeirra fær þó nægilegan skjátíma í tveggja tíma mynd til að þróast almennilega og það er einn af göllum myndarinnar. Stærsti galli myndarinnar fannst mér vera týpískt tölvugert illmenni sem maður nær engri tengingu við. Steppenwolf virkaði á mig eins og ódýr útgáfa af Thanos í leit að orkuríkum hlutum. Ógnin sem af honum stafaði virkaði aldrei nægilega mikil fyrir minn smekk og þar er stórt vandamál í svona mynd.

Ég fór inn með litlar væntingar en myndin fór langt fram úr þeim. Hún er fyndin, það var enginn pirrandi eins og Lex Luthor og ég er almennt spenntur fyrir næstu mynd. Ég væri líka til í staka mynd um Flash, veit ekki um hina, og nú ætti að fara styttast í aðra Green Lantern mynd sem er fagnaðarefni. Þessi mynd er létt og skemmtileg og gladdi gamla nördahjartað. Allir sem fara inn með opnum hug ættu að geta skemmt sér nokkuð vel.

“I miss the days whens one’s biggest concern is exploding wind-up penguins.”

Leikstjóri: Zach Snyder (Dawn of the Dead, 300, Watchmen, Man of Steel, Batman v Superman: Dawn of Justice)