Eins og allir aðdáendur Harry Potter-heimsins vita þá stendur til að gera nokkrar aðrar Fantastic Beasts myndir í viðbót, allt að fjórar.

Eddie Redmayne mun snúa aftur ásamt helsta genginu úr síðustu mynd. Johnny Depp dúkkaði þar líka upp til að láta vita af sér og sinni ógnandi nærveru í hlutverki vonda galdrakarlsins Gellert Grindelwald.
Öruggt er að segja að það leikaraval hafi fengið heldur blendnar viðtökur.

Annars var það löngu ljóst og staðfest að Albus nokkur Dumbledore yrði stór partur af þessari nýju (prequel-)seríu, en þangað til nú var ekki búið að ráða neinn í hlutverkið. Fréttamiðillinn Variety var fyrstur með fréttirnar um að Jude Law yrði maðurinn í hlutverkið.
Við búumst að sjálfsögðu við því að hann verði afar skeggmikill og ljúfur, og verður forvitnilegt að sjá hvernig hann tæklar rulluna sem báðir Richard Harris og Michael Gambon gerðu býsna eftirminnilega – eins ólíkir og þeir voru.

Eins og staðan er núna er þó ekki komið betra heiti á næstu mynd heldur en einfaldlega Fantastic Beasts and Where to Find Them 2. Það mun eflaust breytast… vonum við.

Hún mun allavega rata í bíó seinnipart næsta árs.