Tökur á nýjustu mynd leikstjórans Richard Linklater hefjast í næsta mánuði í Vancouver. Myndin ber nafnið ‘Where’d You Go, Bernadette’ og lítur út fyrir að Jóhannes Haukur Jóhannesson muni bregða þar fyrir. Samkvæmt bíóbiblíunni IMDb fer hann með hlutverk skipstjóra.

Jóhannes er ekki umkringdur amalegum kollegum en með helstu hlutverk fara Cate Blanchett, Kristen Wiig og Billy Crudup. Að svo stöddu eru þessi fjögur einu leikararnir sem skráðir eru. Því má líklegast gera ráð fyrir ágætis skjátíma hjá Íslendingnum.

Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Mariu Semple sem gefin var út árið 2012. Um er að ræða dramatíska kómedíu og fjallar sagan um Bernadette, kvíðasjúkan fyrrum arkitekt og fjölskyldu hennar. Í miðju ferðalagi um norðurskautið hverfur Bernadette sporlaust. Dóttir hennar, Bee, skilur ekkert í þessu og reynir að finna móður sína með því að skoða gömul skjöl og tölvupósta, en í miðri leitinni kemst hún að óhuggulegri fortíð Bernadette.

Handritshöfundarnir Scott Neustadter og Michael H. Weber sjá um aðlögunina en þeir tveir unnu áður saman að The Fault in Our Stars og The Spectacular Now. Eitthvað þykir þó líklegt að Linklater krukki í þessu líka.

Linklater er mati margra á meðal athyglisverðari leikstjóra sem starfa í dag og af hans færibandi höfum við fengið t.d. Slacker, Dazed & Confused, A Scanner Darkly, Before-þríleikinn, Bernie, Boyhood og núna síðast Everybody Wants Some. Linklater hefur leikstýrt 20 myndum alls.

Búast má við því að Where’d You Go, Bernadette verði tilbúin og aðgengileg á næsta ári.

Flottur Jói.