Leikstjórinn og handritshöfundurinn James Gunn er um þessar mundir á fullu að kynna Guardians of the Galaxy Vol. 2 og hefur hann reynst ekkert nema huggulegur við aðdáendur sína á Twitter undanfarið, ef ekki alltaf.

Gunn er ljúfur við sína aðdáendur enda skemmtilegur furðufugl sem hóf feril sinn sem lærlingur Lloyds Kaufman hjá Troma. Síðan skrifaði hann t.d. Tromeo & Juliet, Scooby Doo-myndirnar og Dawn of the Dead (’04). Síðan á leikstjóraferlinum sitja titlar eins og The Specials, Slither, Super og vissulega Guardians 1.

Reglulega tíðkast það að Twitter-notendur skilji eftir ýmsar spurningar hjá honum – sem hann er þrælduglegur að svara! Oft eru þetta spurningar í tengslum við litla mola sem Gunn má ekki tjá sig um varðandi komandi stórmynd sína, en í flestum tilfellum vilja menn bara kynnast manninum örlítið meira.

Hvað fílar hann, eða ekki? Á hvernig kvikmyndir horfir hann? Hvaða tónlist var það sem mótaði hann? Uppáhalds Bítlalag?

Listinn er býsna langur, og áður en tökur hófust fyrir Guardians 2 gekk leikstjórinn berserksgang í nokkra klukkutíma með smá „Ask me anything“ væb og lagði það út fyrir okkur í eitt skipti fyrir öll um hvernig hans innra nörd virkar.
Hér er brot af þeim niðurstöðum sem Gunn tísti til baka, með spurningum:

 

Hver er fyrsta kvikmyndin sem þú mannst eftir að hafa orðið ástfanginn af?
The Strongest Man in the World

Fyrsta platan sem hjálpaði þér í gegnum sorgarstundir?
Welcome to my Nightmare, Alice Cooper

Hver er besta mynd sem þú hefur skrifað en ekki leikstýrt sjálfur?
Langar að segja Dawn of the Dead, en hjarta mitt segir Tromeo & Juliet

Uppáhaldsmynd eftir Martin Scorsese?
Taxi Driver og After Hours

Uppáhaldsmynd eftir Hitchcock?
Vertigo, North By Northwest og Rear Window

Uppáhaldsmynd eftir Quentin Tarantino?
Jackie Brown og The Hateful Eight

Uppáhaldsmynd eftir Guillermo Del Toro
Pan’s Labyrinth

Uppáhaldsmynd eftir David Fincher
Panic Room

Uppáhaldsmynd frá Dennis Dugan?
Big Daddy

Uppáhalds Kurosawa-mynd?
Líklegast Seven Samurai

… Wes Anderson-mynd?
Bottle Rocket

… Robert Rodriguez?
Desperado

…John Carpenter?
The Thing

…Linklater?
Dazed & Confused

…Edgar Wright?
The World’s End

…Christopher Nolan?
Interstellar

(Í ljósi þess að vera Marvel-maður) Þú mátt semsagt ekki nefna The Dark Knight?
Auðvitað má ég það, en mér finnst Interstellar vera miklu betri.

Kubrick eða Tarantino?
Elska báða, en QT hafði meiri áhrif á persónuleika minn.

Uppáhalds handritshöfundar?
Preston Sturges og Charlie Kaufman

Mundirðu leyfa Charlie Kaufman að skrifa næstu Guardians-mynd ef hann væri til í það?
Nei. Hann er kannski í mesta uppáhaldi hjá mér sem handritshöfundur en við tveir hugsum gerólíkt. Þar að auki fengi hann þá launaseðilinn minn.

Hvað með Bítlalag?
While My Guitar Gently Weeps

Joy Division eða The Smiths?
Smiths. Munar um hársbreidd

Uppáhalds karakter í SpongeBob?
(best er að leyfa þessu óþýddu að renna í gegn)
„The pink dildo one!“

Uppáhalds Star Wars-karakter?
(aftur… til að kvóta hann beint)
Motherfuckin’ Chewie of course!

Besta Star Wars-myndin?
Empire

Ég hataði Super þegar ég sá hana fyrst, en ELSKAÐI hana í seinni skiptin, eru þetta algeng viðbrög?
Ótrúlegt en satt þá heyri ég þetta mjög, mjög oft

Hver er albesta Marvel-myndin fyrir utan Guardians…?
Iron Man 1

Hvað finnst þér í dag um The Specials?
Það versta sem ég hef upplifað á setti sem kvikmyndagerðarmaður

Ef þú gætir skrifað og leikstýrt mynd sem þú hefðir fullkomið vald yfir, hver væri sú mynd?
Guardians of the Galaxy: Vol. 2

Er þetta laumuleg leið hjá þér til að segja að þú hafir ekki fullt frelsi á henni?
Alls ekki

Þessari fríkuðu geimóperu Gunns er augljóslega beðið eftir með mikilli eftirvæntingu, og skiljanlega – en nú fer að dvína á meiri samkeppni meðal geimævintýra. Útgáfudagur er 28. apríl 2017.

 

Við hvetjum alla Twitter-fíkla til að elta manninn.