Ekki fyrir svo löngu heyrðust orðrómar um að J.J. Abrams og framleiðslufyrirtæki hans, Bad Robot Productions, væru að framleiða nýja mynd sem myndi koma í kvikmyndahús á næsta ári. Stuttu eftir að þessir orðrómar fóru af stað var nafnið á myndinni kynnt og hverjir myndu leika í henni. Kvikmyndin hefur fengið nafnið God Particle og munu David Oyelowo og Gugu Mbatha-Raw líklegast fara með aðalhlutverkin, þau eru á lokastigi samningsviðræða.

god-particle-movie-david-oyelowo-gugu-mbatha-raw

Aukalega fengum við líka að vita beinagrindina af söguþræði myndarinnar, skrifuð af Oren Uziel, til að svala þorsta okkar aðeins. Myndin gerist í alþjóðlegri geimstöð og segir frá geimförum sem komast að hræðilegri uppgötvun sem mun breyta öllu sem við vitum um raunveruleikann og uppgötva einnig að jörðin muni hverfa vegna tilrauna sem eru gerð í Large Hadron Collider.

Því miður er J.J. Abrams bara framleiðandi myndarinnar ásamt félaga sínum Bryan Burk. Julius Onah hefur verið fenginn til að leikstýra myndinni og verður þetta hans fyrsta mynd í fullri lengd.

Ætli þetta sé kannski önnur „Cloverfield“ mynd í dulbúningi?

Gleymum ekki að þegar 10 Cloverfield Lane fór í tökur gekk hún undir nafninu Valencia, og The Cellar. Maður má alveg láta sig dreyma.

Sjáið Lane, ef þið eigið hana eftir.

Á meðan við bíðum eftir God Particle kemur út næsta stórmynd J.J Abrams, Star Trek Beyond (hvar er tvípunkturinn?), eftir nokkra mánuði.