Það eru til hryllings-, vísindaskáldsögur, gaman-, spennu-, hasarmyndir og svo framvegis og má njóta þeirra mynda hvaða mánuð sem er af árinu. Svo koma jólamyndirnar. Jólamyndir er heill flokkur út fyrir sig en með þeim myndum fylgja ákveðin leiðindi. Það kemur ekki til greina að horfa á jólamyndir nema í einum mánuði ársins. Desember. Í þessum ákveðna mánuði er vanalega ekkert brjálæðislega mikill frítími heldur. Það er mikið stress í fólki og allir eru að drífa sig út um allt til að klára hluti áður en þeir byrja. Baráttan við að komast undan stressinu breytist í stress og endar í tvöföldu stressi. Því er afskaplega yndislegt að geta bara sest niður, slakað á, fengið sér piparkökur og horft á eina æðislega jólamynd sem kemur manni í rétta skapið.

Þar bætist hins vegar annað vandamál við. Ekki nóg með það að það megi bara horfa á jólamyndir í desember þá er, útaf fyrrnefndu stressi, ekkert svakalega mikill tími sem gefst til að horfa á þær. Þar af leiðandi breytast jólamyndirnar oftast í ákveðna hefð í desember. Það er t.d. ákveðin hefð hjá mér að geta horft allavega einu sinni á Christmas Vacation áður en jólin byrja. Svo erum við með Love Actually og margir með t.d. með It‘s A Wonderful Life, Grinch og svo mætti lengi telja. Maður vill helst horfa á sem flestar jólamyndir þar sem þær eru oftast hin fullkomna uppskrift að jólaskapinu. Vandamálið hinsvegar er að þetta eru svo ótrúlega margar myndir. Í ár komu þrjár nýjar: The Night Before, Krampus og Love the Coopers.

die-hard-main

Þegar það eru komnar 2-4 jólamyndir út á hverju ári þá lenda þær því miður í því að vera dæmdar undir öðrum forsendum. Þetta er ekki lengur spurning um hvort að myndin sé góð eða skemmtileg heldur spurning um hvort að hún sé nægilega mikill klassíker til að verða hluti af hefðinni sem jólamyndir búa til. Þegar ég sá Krampus um daginn hugsaði ég oft með mér „Ætli ég muni geta sett þessa í tækið á næsta ári og horft á hana aftur til að skemmta mér fyrir jólin?“. Svarið við því hallaðist þó meira að neikvæðu hliðinni þar sem ég sé alveg fyrir mér að hún verði ekki jafn skemmtileg við seinna áhorf. Ég tel þetta skemma dálítið fyrir jólamyndunum sem koma út ár eftir ár.

Mörg okkar eru heldur ekki bara með jólamyndir sem hluti af hefðinni. Kvikmyndaseríur eins og Lord Of The Rings, Hobbit og Star Wars eru taldnar vera sígildur hluti af jólunum af mörgum. Þær hafa ekkert með jólin að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut. Lord Of The Rings og Hobbitin voru hinsvegar gefin út á jólunum og voru þar af leiðandi stóru jólamyndirnar sem sýndnar voru 2. í jólum. Það hefur þá skapast sú hefð að nýta frítímann sem myndaðist milli jóla og nýars til að horfa á löngu seríurnar sem best njóta sín þegar horft er á þær í röð. Þá er setjast niður og gefa sér tíma til að horfa á þær og njóta þeirra. Þessum stórmyndum þarf svo að blanda við klassísku jólamyndunum og nýju jólamyndunum sem þarf að sortera úr og sjá hvað er gott og hvað ekki.

HobbitBattleoftheFiveArmies-011

Kannski er ég bara að horfa á þetta með vitlausu augum. Kannski er ég að stressa mig of mikið á þessu og ætti bara að njóta þess að horfa bara á þær jólamyndir sem ég næ að horfa á og kvarta ekki undan því. Taka vel á móti nýju myndunum og leyfa þeim að rata í tækið þegar að því kemur, hvort sem það sé eftir 1 ár eða 5. Kannski er best að bara að sleppa þessu stressi.