Aldrei er góð vísa of oft kveðin, en það hefur eflaust runnið í gegnum hugsanir hvers einasta íslendings afhverju í ósköpunum við skulum vera með hlé hér á landi. Þessi tíu mínútna pása gerir ekkert nema trufla myndina á stað sem á ekki að trufla. Af hverju í ósköpunum er þetta þarna?
Og þá er ég ekki að spyrja til þess að fá svar sem segir mér að bíóeigendur geti grætt meira.

Annars, þegar ég spyr fólk sem diggar hlé af hverju það vilji hlé þá fæ ég oftast sama svarið „maður þarf að pissa og kaupa kók“. Það er víst ráðlagt fólki að pissa á 8 tíma fresti en líkaminn á að geta haldið þvagi í 24 tíma án þess að valda neinum alvarlegum skaða (skoðið nú bara hversu lengi líkaminn getur haldið í sér í svefni. Þetta er ekki erfitt). Sem betur fer er meðalkvikmyndin ekki 24 tímar, hún er 2. Ef að einstaklingur nær ekki að halda þvagi í 2 tíma þá ætti hann að leita sér aðstoð hjá lækni eða skrá sig inn á Grund, þar getur hann meira að segja fengið aðstoð við að fara klósettið víst það er svona voðalega erfitt.

Versta hlé sem ég hef lent í var þegar ég ákvað að kíkja á Lion King í þrívídd. Þetta var þegar ‘Rímasteraða’ útgáfan var sýnd árið 2011. Ég var í Kringlubíó, man það vel. Eitt dramatískasta og að margra mati sterkasta atriði teiknimynda frá upphafi var að hefjast. Skari var í þann mund að fara svíkja Múfasa. Svo gerist það! Skari kastar honum niður og Múfasa deyr. „Pabbi! Pabbi!“ heyrist í Simba og allur salurinn er með tárin í augunum. Litli simba nuddar sig upp við lík föður síns og endurtekur orðin „Pabbi!“. Allir í salnum eru dauðir í sálinni, það má ekkert trufla þetta móment. En….BAM! HLÉ! Já. Dramatíkinni klippt í tvennt. Eftir hléið hélt svo atriðið áfram eins og ekkert hefði gerst. Ekki reyna að verja hlé í kvikmyndum núna.
Auðvitað gerir hver áhorfandi sínar ‘pásur’ stöku sinnum þegar glápt er á kvikmynd í heimastofunni, en það er allt annað umhverfi og ástand að geta stjórnað hraða og spilun bíómyndar x eftir eigin þægindum. Þú ferð ekki í bíó til þess að búast við pásutakkanum. Þú ferð fyrir upplifunina!

Ímyndum okkur hið langsótta og spyrjum okkur hvað hefði gerst ef leikstjórar Lion King hefðu verið í salnum þegar dauði Múfasa breyttist í sjoppuheimsóknir. Þeir hefðu trúlega sturlast. Að horfa á verkið sitt verða pásað í miðjunni bara til að gefa fólki smá pásu er óvirðing á hæsta stigi fyrir kvikmyndagerðarmennina og rennslið sem þeir leggja svo mikla vinnu í.

Segjum sem svo að þið væruð að flytja fyrirlestur fyrir framan 100 manns. Í miðri setningu ertu beðinn um að hætta svo að fólk geti farið að pissa, og þú átt eiginlega að byrja aftur eftir 10 min nákvæmlega þar sem þú hættir. Ekkert voðalega gaman. Við fáum sömu tilfiningu þegar við erum að sýna fólki lag sem við elskum eða kvikmynd sem við elskum (heima). Einstaklingurinn sem á að vera hrifinn ýtir á pásu. Fyrstu viðbrögðin þín er að hneykslast og spyrja afhverju hann sé að pása þetta. Eðlilegt.

Hléið hefur líka vakið upp eina heimskulegustu spurningu sem mannkynið hefur gefið frá sér. „Jæja, hvernig finnst þér“. Hvað finnst mér um myndina sem er hálfnuð? Myndina sem á ennþá eftir að gefa upp hvernig söguþræðinum lýkur og hvað gerist við karakterana í myndinni? Ég veit það ekki og ég ætla ekki að svara því. Ég skal glaður ræða myndina um leið og henni lýkur. Hléin hafa líka gefið upp „fyrir hlé – eftir hlé“ umræðuna. Þar sem fólk segist ekki hafa fílað myndina fyrir hlé en eftir hlé hafi hún algjörlega komist á ról. Einkennileg leið til að tala um hvernig myndin var.

Það á að vera lítið mál að sitja í 2 tíma og stara á eina kvikmynd án þess að standa upp, þó maður verji að spyrja sig hvort svo sé þegar fólk verður sífellt vanara því að horfa á myndir með öðru auganu í síma eða tjattar á Facebook á meðan stór, tens móment skolast yfir.

Góð málamiðlun væri að hafa, eins og var hér áður alltaf gert, sérmerktar sýningar á daginn sem eru hlélausar. Hlé eru tilgangslaus og algjörlega ónothæf. Samt vilja 51% íslendinga hlé samkvæmt RÚV. Eitthvað þarf að gera til að klóra hinum 49.

Hvoru megin ert þú? Hlé eða ekkert hlé?