Fyrri Independence Day myndin leyfði sér að vera virkilega, virkilega heimskuleg en Independence Day: Resurgence þrefaldar greindarskortinn, losar sig við öll æpandi þemu um sameiningu fólks og mínimal persónusköpun, kýs þá í staðinn að vera rugl hröð, makalaust rugluð og metnaðarfull hasar-, rúst- og geislabyssuveisla. Fullt af karakterum, endalaus tortíming (enda eru geimverurnar að bókstaflega ryksuga jörðina í þessari lotu) en allt svo innantómt og ruglað.

En sem ‘schlocky’, glóbal-epísk spennufantasía er hún annars vegar aulalega skemmtileg. Aldrei er dauð mínúta og hugmyndirnar í henni eru stórar, stundum áhugaverðar en oftast nógu brandaralega kjánalegar – eins og viðbjóðslega hentugu lausirnar sem handritið gubbar út – til þess að varla sé hægt að segja að hún komi ekki á óvart á köflum.

id4-gallery5

Leikaraliðið nær vægast sagt misvel að halda andliti yfir skítvondum díalog… sem myndin er mjög oft meðvituð um, blessunarlega. Jeff Goldblum er þarna vissulega fremstur á meðal allra, líkt og seinast, með sinn slánalega silfurrefssjarma og takta sem sjónlaust fólk getur ekki einu sinni tekið of alvarlega – hann er æðislegur. Plús, pissar bókstaflega á sig af hræðslu í þessari mynd. Hvernig er ekki hægt að elska það pínu?

Aðrir úr gamla hópnum eru umtalsvert flatari. Vivica A. Fox sóast í ónýtu gestahlutverki, Judd Hirsch er ágætur en sub-plottið hans hefði umhugsunarlaust átt að slúttast í kringum miðbikið. Síðan er Bill Pullman afleitur og strax skýst í hausinn á manni af hverju við höfum ekki séð þennan mann af viti eftir aldamótin. Hann rembir sig út en verður bara kómískur. Brent Spiner fær annars mörg tækifæri til þess að vera megahress, enda þrælvirkar hann í sínum gír og virðist fullkomlega var við hvers konar mynd hann er að leika í.

Annars hef ég sjaldan séð Liam Hemsworth svona peppaðan, og virðist hann vera á meðal fárra sem er að skemmta sér í botn. Svo týnast þarna inn enn fleiri einhliða spýtufígúrur, sumar fjörugri/þolanlegri en aðrar, en í það minnsta sjáum við afrískan stríðskóng höggva geimverur með sveðjum. Sveðjum!

Og já, gleymum ekki að þarna er hálfri Asíu hent ofan á Bretland.
Það er nokkuð magnað.

id4-gallery1

Fyrri myndin var tæknilega séð grautþunn afþreying sem á pörtum og heilt yfir slysaðist til þess að vera býsna góð. IDR er það sama, augljóslega, en á annan veg svo mikið rusl í samsetningu að hún slysast meira til þess að vera býsna fjörug, sérstaklega því lengra sem á þvæluna líður. Best er bara að njóta flugeldanna og helst hlæja að þeim.

Leitt samt að við fáum ekki þriðju myndina, í ljósi þess að ID:R er bara í rauninni langur trailer fyrir næsta ævintýrið. En drullufínn trailer!