Framleiðandinn Val Lewton, lítið þekktur í dag, er engu að síður ábyrgur fyrir mörgum stórkostlegum hryllingsmyndum, myndum sem hafa elst gríðarlega vel vegna þess að þær reiða sig á andrúmsloft, sálfræðilega dýpt, sammannlega hegðun, ljóðræna framvindu og frábærlega skrifuð handrit (hann skrifaði alltaf lokaútgáfu handritanna sjálfur án þess að taka credit).

Ekki skaðar að fá frábæran leikstjóra síðan til að koma efninu til skila því Jacques Tourneur gerði frábær stykki eins og ofur-rökkrann“Out of the Past“ og „Cat People“ (líka Val Lewton mynd) og hann kemur efninu hreint glæsilega upp á skjáinn. Myndin er lausleg útgáfa af Jane Eyre og fjallar um unga hjúkrunarkonu sem er ráðin til að fara til Vestur-Indía til að sjá um veika konu planekrueiganda, þar sem henni fer annars vegar að gruna að konan sé uppvakningur og hinsvegar fer hún að falla fyrir planekrueigandanum dularfulla. Inn í málið blandast voodoo athafnir, einn alskrítnasti zombie allra tíma og frábær endir. Myndin er aðeins 69 mínútur (Lewton skuldbatt sig til að skila öllum myndum af sér 75 mín eða styttri) en á þeim tíma nær hún að skila töfrum sem helmingi lengri (og frægari) myndir ná ekki að snerta.