duck-you-sucker-gi-la-testa.27966Duck, You Sucker! (aka A Fistful of Dynamite) var næstsíðasta mynd meistarans Sergio Leone og líklega hans minnst þekktasta ef undan eru skildar þær þrjár myndir sem hann gerði á undan A Fistful of Dollars. Duck, You Sucker! kom út 1971 og upprunalega ætlaði Leone ekki að leikstýra henni og meðal leikstjóra sem hann reyndi að fá til að gera hana voru engir aðrir en Peter Bogdanovich og Sam Peckinpah. Þeir höfnuðu honum og á endanum tók hann sjálfur að sér leikstjórnina, sem betur fer.

Myndin var hugsuð sem ádeila á byltingarhugtakið þar sem Leone hafði misst alla trú á byltingum og taldi þær ekki vera til neins góðs á endanum. Myndin byrjar á vitnun í sjálfan Maó sem segir „…a revolution is not a social dinner, or a literary event, or a drawing or an embroidery; It can not be done with elegance or courtesy. The Revolution is an act of violence.”.

Þessi ádeila birtist helst gegnum hetju myndarinnar Juan Miranda (Rod Steiger), eða andhetju öllu heldur þar sem hann er í raun lítið meira en bófi og ribbaldi sem stundar það að vafra um sveitir Mexíkó, ásamt sex sonum sínum og föður, og ræna fólk og rupla. Í upphafi myndar kynnist hann Íranum John (James Coburn) sem er alræmdur hryðjaverkamaður og meðlimur í Írska lýðveldishernum á flótta frá réttvísinni. Leiðir þeirra liggja sundur og saman í gegnum myndina og það eina sem Juan hugsar um er að ræna banka en einhvern veginn endar hann á að vera frelsishetja og byltingarsinni, gegnt vilja sínum. En eina sem þessi bylting getur af sér í raun og veru er dauði og eymd.

duck-you-sucker-sinemahzen

Sergio Leone er leikstjóri sem hefur í raun ekki alveg fengið þá virðingu sem hann á skilið, þótt hann hafi fengið þónokkra. Ástæðan fyrir því er í fyrsta lagi sú að flestar mynda hans eru vestrar, með öðrum orðum: Ómerkilegar greinamyndir. Önnur ástæða er sú að hann gerði bara sex myndir sem eitthvað var varið í. Engu að síður voru og eru fáir leikstjórar sem hafa haft jafn mikið vald á miðlinum og Leone og því leitt að hann sé sjaldan settur á sama stað og menn eins og Hitchcock og Kurosawa. Myndir hans eru nánast fullkomnlega sjónrænar og fáir sögðu jafn góða sögu með myndum eins og hann. Samtölin í myndum hans eru líka góð og koma einhverju til skila en myndirnar gætu samt vel lifað án þeirra, kvikmyndin er sjónrænn miðill og fáir skildu það betur en Leone.

Með Duck You Sucker! er áhorfandinn gripinn strax í upphafi. Myndin byrjar reyndar með texta á skjánum, tilvitnuninni í Maó, en hvernig textinn birtist á skjánum, hvernig honum er skipt upp, skiptir miklu máli og er skemmtilega gert. Tilvitninun eru birt í litlum skrefum og maður er spenntur að sjá hvert það fer. Síðan strax í fyrsta skoti á eftir textanum sjást skríðandi pöddur sem er verið að pissa á. Eigandi þvagsins er sjálfur Juan og strax erum við komin með góða hugmynd um hver hann er og hvað hann stendur fyrir, á mjög einfaldan en beinskeittan og skemmtilegan hátt.

Áfram er haldið í þessum dúr í tvo og hálfan tíma en maður finnur lítið fyrir tímanum. Myndin er full af senum þar sem lítið virðist gerast en Leone er meistari í að byggja upp spennu og andrúmsloft. Hann á það til að halda skotinu lengi vel á andliti fólks en með tónlistarnotkun og réttu samhengi tekst Leone að halda áhorfandanum alveg límdan við skjáinn þótt lítið sé að gerast. En það er engu að síður nóg af hasar líka, fjölmargar sprengingar og skotbardagar og “body countið” í myndinni er ansi hátt. Myndin inniheldur líka eina magnaða og mjög svo “brutal” senu þar sem hópar fólks hafa verið króaðir af í einhvers konar dýki ofan í jörðinni og eru umkringd hermönnum sem eru að taka þau af lífi, manni líður eins og maður sé að horfa á helfararmynd en þessi sena hefur í raun ekki mikið að gera með meginsöguna heldur er partur af þema myndarinnar sem er sýna fram á hvað stríð og byltingar eru hreinlega viðbjóðslegar. Húmor og harmur sitja hlið við hlið í þessari mynd.

Duck-you-sucker---

Það gekk á ýmsu við undirbúning, framleiðslu og útgáfu Duck You Sucker og það er lítið rými hér til að útlista það allt, en Leone átti í vandræðum með að koma út þeirri útgáfu sem hann var sáttur með. Myndin er þekkt undir a.m.k. þrem titlum á ensku: Duck You Sucker er upprunalegi enski titillinn sem Leone þýddi sjálfur úr Ítalska titli myndarinnar: Giu la testa (fullkomnlega beinþýddur væri hann “Duck your head”). Myndin kom síðan út í Bretlandi og Bandaríkjunum sem A Fistful of Dynamite til að tengja betur við Dollaratrilógíuna en svo í Frakklandi var hún gefin út sem “Once Upon a Time… The Revolution” til að tengja hana við Once Upon a Time in the West sem var gríðarlega vinsæl þar í landi.

Fyrir utan allt titlaruglið voru til margar mislangar útgáfur af henni og t.d. var hún stytt um meira en 20 mínútur í Bandaríkjunum þar sem þeir drógu úr pólitíkinni og ofbeldinu. Sú útgáfa sem kemur næst því sem Leone sá fyrir sér er 157 mín löng og er mælt helst með að verða sér úti um þá útgáfu, en hún var re-masteruð og endurútgefin fyrir 10 árum eða svo en hafði verið illfáanleg fram að því.

Að lokum er vert að minnast á að líkt í öðrum myndum Leone er tónlistin eftir Ennio Morriccone og er auðvitað tær snilld.