Með vetrinum kemur ekki aðeins hundleiðinlegt veður og niðurdrepandi andrúmsloft, heldur fer einnig flóran af vongóðum verðlaunamyndum og áhugaverðum „festival darlings“ að detta í hús. Það getur þó verið þreytandi að krafsa í gegnum hverja Óskarsmyndina á fætur annarri og maður getur aðeins horft á svo margar hægbrennandi karakterstúdíur. Það er því alltaf eins og skot af adrenalíni í æð þegar eitthvað algjörlega kexruglað lítur dagsins ljós við lok ársins sem hefur skautað undir radarnum allan ársins hring. Má ég kynna: The World of Kanako.

Hún fylgir fyrrverandi rannsóknarlögreglumanninum Akikazu sem er fenginn af barnsmóður sinni til að leita uppi tánings dóttur þeirra, Kanako. Hvert sú rannsókn leiðir hann þurfið þið að komast sjálf að, en segjum bara að myndin er ekkert að draga úr ýktum stílbrögðum með tonn af blóði, brjálæði og skólastúlkum (og sagan byrjar á jólunum, sko bara). Þetta er hressandi og kol- kolsvartur kaffibolli sem þú ættir alls ekki að sleppa því að súpa á.

The World of Kanako var gefin út samtímis á VOD og í fá kvikmyndahús erlendis núna í desember, og ég heimta að íslenskir kvikmyndaperrar í valdastöðum taki hana í dreifingu.