Tæknimesta list allra tíma, enda hið allra nýjasta listform, sem varpar 24 eða fleiri römmum af ljósmyndum á sekúndu svo lítist sem svo mynd hreyfist, er ekkert nema sjónhverfing. Blanda því saman við frásögn og við höfum kokteil eins vinsæll mönnum og ljósapera er fyrir flugu:

Flugur rata um umhverfið sitt með því að ferðast í átt að fjarlægum ljósgjafa, eins og tunglinu, en ruglast við manngerða ljósgjafa eins og ljósaperur, og fljúga þangað.

Allavega, það elska þetta allir, meira að segja óþolinmóðustu verur jarðar, þ.e. tveggja ára börn sitja og stara í 90 mínútur þó þau geta ekki beðið í tvær mínútur eftir að sjónvarpið fari í gang. Eftir tölum 2014 útgáfu MPAA Theatrical Market Statistics halda kvikmyndahús Bandaríkjana áfram ár eftir ár að draga inn meira fólk en allir skemmtigarðar og íþróttaviðburðir til samans. Af öllum frítíma sem hinum almenna kana er fengið, er talið að helmingur hans fer í sjónvarp. Það telur saman í um það bil 9 ár af heilu lífskeiði, næstum því jafn mikið og vinna tekur af kökunni, sem eru 10 ár.

Með öðrum orðum er fólk að reyna allt sem finnst mannlega mögulegt til þess að eyða eins miklum tíma og hægt er í myndir og myndbönd, og auglýsingar þess á milli.

oli1Þetta fyrirbæri hefur vafist utan um líf okkar og menningu svo stórkostlega að þegar barnabörn barnabarna okkar, eftir hundrað kynslóðir og yfir tvö þúsund ár, munu læra í einhverju þróaðra menntakerfi um þessar aldir sem við lifum í, rétt eins og við lærum um forn grikkja, verða kvikmyndir líklega hin allra stærsta skilgreining á okkar menningu, þ.e. á eftir stríði, hatri, og kannski Donald Trump.

Við sjáum til.

oli2En sama hvað okkur finnst gaman að hlæja og benda á þessa vitleysinga þarna vestanhafs, er alveg ljóst að á einu sviði erum við að hlaupa svitnandi á eftir Bandaríkjamanninum, haldandi í hálsinn á honum, öskrandi “gefðu mér meira, MEIRA!”

Samkvæmt tölum eru Íslendingar að skiptast á sætum í efstu röðum fyrir meðalaðsókn kvikmyndahúsa á íbúa. Frá upplýsingum Ágústs Einarssonar má sjá tölur frá 2004/2005, þar sem Bandaríkjamenn tróna efst með 5,2 árlegar bíóferðir á höfðatölu, og Íslendingar rétt á eftir með 4,9. En til dæmis árið 2008 voru Íslendingar efstir, og Bandaríkjamenn í 4. sæti.

image006

Gáta: Ef Ísland er litla-Ameríka bara því það er minna en Ameríka, hvað væri litla-Ameríka þá ef hún væri jafn stór eða stærri en Ameríka?

Þá vitum við það. Íslendingar eru sturlaðir bíófíklar. Sjá hér aðsókn bíóhúsa árið 2010 yfir allan heiminn á gagnvirku korti.

En það er vegna þess að kvikmyndir eru svona vinsælar, vegna þess að myndbönd eru hinn ákjósanlegi kostur manna fyrir upplýsingar og afþreyingu, vegna þess að þessi sjónhverfing er svo skilgreinandi, að þörf er á smá þurri tölfræði. Því nú býst ég við því að börn framtíðarinnar læri undir menntakerfi sem byggist á harðkjarna staðreyndum og engu öðru.

Til að byrja að reyna að skilja hvernig staða Íslendinga er gagnvart kvikmyndum og hvað þeir eru að horfa á, þurfum við fyrst að fara út fyrir Bandaríkin og Ísland yfir í allan heiminn. Mikið hefur verið um í fjölmiðlum seinustu árin varðandi dvínandi frumleika vinsælla mynda. Tölur sem ég tók saman af boxofficemojo.com, filmsite.com, og the-numbers.com, bera fram að af tekjuhæstu myndum hvers árs á heimsvísu árin 1986 til 1995 voru 8 af þeim frumlegar, og aðeins 2 framhaldsmyndir. Á tuttugu árum hefur þetta snúist alveg á hvolf, þar sem á árunum 2006 til 2015 voru aðeins 2 af tekjuhæstu myndum hvers árs frumlegar, en heilar 8 voru framhaldsmyndir.

Með öðrum orðum: lélegar myndir.

Áratugurinn þarna á milli hafði 6 frumlegar myndir. En ég meina, auðvitað er það gott að halda sig við það efni sem hefur fyrir fram gefinn markaðshóp. Eins og kókaín, James Bond og Star Wars er eins og kókaín. Þetta græðir. Þetta þýðir auðvitað ekki að myndir eru þá ófrumlegar í heildina. Lang mestur meirihluti allra mynda sem eru gerðar eru einar af sínu tagi, og gæði þeirra eru væntanlega ekki undir áhrifum af gróða.

En ef við viljum líta einungis á stóru bandarísku fyrirtækin, þá voru Yahoo blaðamenn sem tóku saman tölurnar á Universal, Columbia, 20th Century Fox, Paramount, og Warner Bros, ásamt MGM og Disney, árin 1984, 1994, 2004, og 2014. Þeir röðuðu þeim upp í frumlegar, framhaldsmyndir, og fleiri flokka, og komust að þeirri niðurstöðu að þeirra framleiðsla á frumlegum myndum hefur farið frá yfir 58% niður í minna en 25%.

image008

Gáta: Hvað kom á undan, listaverkið eða áhorfandinn?

image010Þær myndir sem eru ekki einar af sínu tagi (e. framhalds-, og ofurhetjumyndir) eru að græða flesta peningana. En í þeirri staðhæfingu liggur önnur staðreynd, eða allavega sú rökrétta samsvörun að einhver ákveðin meirihluti jarðarbúa hlýtur þar af leiðandi að vera að sjá ófrumlegar myndir, þ.e. framhaldsmyndir, og hasar- og ofurhetjumyndir byggðar á áður útgefnu efni. Líka á Íslandi, því bæði dreifing bandarískra mynda og aðsókn þeirra er töluvert meiri heldur en af öllu öðru.

Eins og sjá má hér að neðan, frá árunum 1996 til 2004 fer dreifing áhorfenda varla fyrir neðan 97% á erlendar kvikmyndir, sem eru bandarískar næstum því að öllu leyti.

image012

Gáta: Hversu mikið af vöru þarf sölumaður að selja kúnna þangað til að kúnninn er orðinn að vörunni sjálfri?

En þarna má sjá tölurnar rokkast örlítið óvenjulega árið 2000 vegna aðsóknar á íslenskar kvikmyndir. Englar Alheimsins var frumsýnd árið 2000, Mýrin 2006, Svartur á Leik 2012 og voru það allt myndir sem náðu að skrika til tölurnar. Íslenskar myndir eru oft þær tekjuhæstu á landsvísu þau árin. En ef á heildina er litið er bæði aðsókn og dreifing bandarískra mynda auðvitað lang mest.

Þetta er meira dót frá Dr. Ágústi Einarssyni. Ekki nema um 17% sýndra mynda eru evrópskar, 2% eru íslenskar, og 2% frá öðrum löndum, sem gerir bandarískar myndir að 79% allra mynda í íslenskri dreifingu, (hlutfallstölur frá 2009). Þar var Danmörk að minnsta kosti með 30% evrópskar myndir, 13% frá sínu eigin landi, og 5% frá öðrum löndum.

image014

Gáta: Hvað væri 2 + 2 ef enginn gefði skít?

Hér má sjá áhrif Engla Alheimsins, en árið 2000 var einnig frumsýningarár myndarinnar 101 Reykjavík og aðra íslenskra mynda svo sem Fíaskó eftir Ragnar Bragason. En þær hafa væntanlega líka átt einhvern hlut í þessum tölum.

Hérna má einnig sjá að aðsókn á íslenskar myndir fór hækkandi frá 2006 til 2012. Eins og að íslendingar fóru einungis á myndir ef þær voru góðar þangað til Mýrin kom 2006, þá byrjaði hver sem er að fara á hvað sem er, greinilega.

image016

Þannig að Englar Alheimsins gerði það gott. En við skulum ekki gleyma því að Íslendingar eru samt varla að horfa á neitt nema bandarískar myndir, eins og það sé ekki nógu ófjölbreytt að allur heimurinn þarf að horfa upp á framhaldsmyndir á færibandi.

En það er allt í lagi. Þið náið bara í allar þessar dönsku, frönsku, ítölsku, rússnesku, japönsku, og kóresku myndir ólöglega af netinu. Því þið kunnið á heiminn. Þið eruð gáfuð.

Kvikmyndir eða þessi sjónhverfing í heild sinni er – fyrir samantekt þessarar greinar – bæði fallegt listform sem mannverur nota sem leiðarljós þegar þær rata ekki til tungls síns skilnings á heiminum (sjá ofangreinda útskýringu á hegðun flugna), og vinsælt afþreyingarefni sem mun svæfa börn barnabarna okkar, eftir hundrað kynslóðir, í sagnfræði framtíðarinnar.

Við skulum njóta kaffibollans meðan hann er heitur.