Stutta útgáfan:
Leikararnir eru góðir, handritið frábært og kemur á óvart hvað myndin er skemmtilega sjálfsmeðvituð. Myndin er þó stundum í tilverukreppu þegar kemur að því hvort eigi að grípa í húmor eða halda í alvarleikann en sem betur fer fljót að redda sér úr þeim vandræðum. 

8

 

 

Langa útgáfan:

Efnahagshrunið 2008 er eitthvað sem við Íslendingar þekkjum vel og sjáum við enn afleiðingar þess á hverjum einasta degi. Þó að við höfum lent mjög illa í hruninu þá voru Bandaríkjamenn einnig frekar særðir þegar eitt stærsta hrun kapítalismans átti sér stað. Í stað þess að gera mynd sem snýr að þeim sem ollu hruninu (nóg af heimildarmyndum um það, mæli með Inside Job) þá er stefnan tekin á þann litla hóp af mönnum sem lásu rétt í tölurnar og sáu kreppuna koma hægt og rólega.

Hverjum hefði dottið í hug að maðurinn sem gerði Anchorman myndi leikstýra mynd um efnahagshrunið og ná því nokkuð vel. Honum hefur hins vegar tekist það og var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leikstjórn. Ég mótmæli þeirri tilnefningu ekki á einn einasta hátt enda byrjar myndin á sterku opnunaratriði þar sem hún tekur þá stefnu að segja nánast beint út við áhorfendur að myndin sé gáfaðri en þeir. Hún talar samt ekki niður til áhorfenda, heldur hjálpar öllum við að skilja hvað sé í gangi, enda eru sum hugtökin í myndinni ekki nema fyrir menntaða viðskipta- og hagfræðinga og meira aða segja þeir gætu orðið týndir.

Myndin tekur þá stefnu að brjóta fjórða vegginn og útskýra fyrir okkur öllum að mikið af þessu bankamáli sé gert til að láta okkur líða heimsk. Myndin nýtir sér þó fræga einstaklinga til að útskýra flókin hugtök og eigum við t.d. nokkrar mínútur með Margot Robbie í búbblubaði þar sem hún fer rólega yfir málin með okkur. Með því er grunnurinn lagður að því sem koma skal. Háalvarlegt umfjöllunarefni vafið í léttan súrealisma.

bigShort4

Mckay leyfir tóninum dálítið að ráfa um eftir því hvernig atriði er í gangi. Hann stekkur frá því að gera heimildarmynd yfir í grínmynd og hendir sér svo djúpt ofan í drama. Það gæti fælt suma frá en það heppnast þó oftast hjá honum þó það hefði mátt vera aðeins meiri stjórn á því hvernig stíl myndin er í. Sérstaklega þegar kemur að myndavélinni. Fyrstu atriðin eru tekin upp eins og shaky cam heimildarmynd en sá stíll er svo aldrei heimsóttur aftur og eru sumar tökur svo hraðar og skrítnar þrátt fyrir að vera bara einfaldar samræður að það verður dálítið klikkað að fylgjast með þessu. Þegar þetta tekst hjá honum tekst þetta hinsvegar svo vel að ég var kominn alveg a ystu nöf í spennu.

Það er auðsjáanlegt í mörgum atriðum að McKay leitast eftir því að endurskapa stemninguna sem Wolf Of Wall Street gerði með sitt efni. Fjórði veggurinn er brotinn þónokkrum sinnum og fá karakterarnir oft að kynna sig sjálfir fyrir áhorfendum. Eitt atriði fer svo langt að Gosling lítur í myndavélina og segir „já, þetta gerðist í nákvæmlega þessari röð“. Þetta er töff frásagnarháttur þegar það er verið að gera mynd byggða á sönnum atburðum en það er ekki erfitt að sjá hversu oft hún vil að við skemmtum okkur jafn vel og yfir úlfinum. Efnið er þó aðeins þyngra í þessari mynd þannig að það gengur ekki eins oft upp og það á að gera.

short

Leikararnir gætu varla verið betri enda ekki von þegar Christian Bale, Ryan Gosling og Brad Pitt eru í aðalhlutverkum. Senuþjófurinn er samt klárlega Steve Carell. Hann þurfti að fitna töluvert fyrir hlutverkið sitt sem hinn neikvæði, raunsæi Mark Baum og virðist vera algjörlega dottinn inn í þann gír að geta tekið að sér alvarleg hlutverk eftir Foxcatcher. Hann nær, auðvitað, kómísku augnablikunum jafnt sem dramatísku hápunktunum og er að mínu mati með bestu frammistöðuna. Bale fær einnig að spreyta sín verulega en maður er nánast orðinn ónæmur fyrir leiknum hans, hann er einfaldlega svo góður. Pitt heldur áfram að vera gamli, skeggjaði Pitt sem fer rólega með línurnar sínar og flytur viskuleg orð til þeirra yngra. Hann hefur verið dálítið í þeim pakka undanfarið. Ég er samt dauðfeginn að sjá að Adam Mckay hafi ekki troðið Will Ferrell í cameo hlutverk til að vera fyndinn.

Eitt sem mér þótti samt dálítið furðulegt var að myndin kýs að breyta nöfnunum á öllum karakterum sem þeir eru byggðir á. Eini karakterinn sem heitir réttu nafni er Michael Burry, sem Bale leikur. Það var því dálítið sérstakt að gúgla einstaklingana í myndinni og komast að því að þetta væru allt vitlaus nöfn, sérstaklega þegar myndin ítrekar það oft að það sem við séum að sjá er nákvæmlega eins og það gerðist.

Það er alveg klárt að þetta er hingað til óvenjulegasta myndin um hrunið. Hún tæklar umræðuefnið á þungan en samt léttan máta og er algjörlega sjálfsmeðvituð um hversu flókið þetta getur allt saman verið. Hún rífur í handbremsuna þegar hlutir verða of flóknir og er stundum aðeins of fljót að fara aftur upp í 100. Handritið er þó algjör snilld, leikararnir góðir og McKay má alveg íhuga það að prufukeyra sig í einhverju öðru en pjúra flippi oftar.