Steini og Olli (oft þekktir sem Laurel & Hardy) eru væntanlegir í bíó á ný, nú frá handritshöfundi Philomena og framleiðanda Suffragette, með Steve Coogan og John C. Reilly í titilhlutverkunum.

Sagan mun fylgja þeim félögum á eldri árum sínum og mæta þeir skrautlegum draugum, en það sem á eftir að hægja á þeim enn frekar og reyna á vináttu þeirra er hrörnandi heilsan hans Olla.

Handritshöfundurinn Jeff Pope er víst gríðarlegur aðdáandi þessa tvíeykis og leyndi ekki spenning sinn við Variety, en þar sagðist hann ekki ætla að vera þræll nostalgíunnar í tæklun sinni. „Þegar ég horfi á þessa vitleysinga líður mér eins og ég sé aftur orðinn sex ára og dolfallinn,“ segir hann.

„Ég geri mér grein fyrir því hvað það er mikil ábyrgð að blása alveg nýju lífi í þessa karaktera en ég þarf að gæta þess að meðhöndla þá eins og gallaða einstaklinga, ekki bara þekktar fígúrur sem voru hetjurnar mínar í æsku. Ég vona samt innilega að umhyggjan skíni gegnum handritið.“

Enn á eftir að finna leikstjóra fyrir myndina.