„Who will be his bride tonight?“

Horror of Dracula er sennilega þekktasta mynd kvikmyndaframleiðandans Hammer. Þetta var í fyrsta skipti sem Christopher Lee lék Dracula, sem gerði nokkrar slíkar myndir, enda frábær í hlutverkinu og af mörgum talinn besti Dracula allra tíma. Hér leikur hann á móti Peter Cushing sem er ekki síður goðsagnakenndur. Það er algjör veisla að sjá þá tvo, en þeir léku einnig saman í fleiri myndum eins og The Curse of Frankenstein frá 1957.

Myndin fylgir gróflega sögu Bram Stoker um Dracula. Mér skilst að sagan í útgáfu Coppola frá 1992 sé mjög nálægt bókinni, svo það er áhugavert að bera þessar tvær saman. Í þessari útgáfu fer Jonathan til Transylvaníu eins og í sögu Stoker en unnusta hans er hinsvegar ekki Mia heldur Lucy. Örlög Jonathan eru líka önnur og meira er gert úr hlutverki Van Helsing, enda fer Cushing með það hlutverk. Þetta er æðisleg mynd. Hún er í raun niðursoðnir kvikmyndatöfrar í dós sem unnendur kvikmynda ættu að bragða á.

„Sleep well, Mr. Harker.“

Leikstjóri: Terence Fisher