Isao Takahata er einn sá allra fremsti og færasti leikstjóri sem starfar í teiknimyndabransanum í dag. Því miður eru ekki margir sem kveikja á perunni þegar nafn hans ber á góma, en hann hefur árum saman þurft að standa í skugga kollega síns, Hayao Miyazaki. Ansi algengt er að fólk gefi Miyazaki heiðurinn fyrir myndirnar hans Takahata, eða rugli myndunum þeirra saman, en þeir félagar stofnuðu Studio Ghibli saman ásamt Toshio Suzuki árið 1985.

Af þeim tveimur varð Miyazaki töluvert frægari og vinsælli, sérstaklega á vesturlöndum, þó að myndirnar þeirra séu algjörlega sambærilegar að gæðum. Þeir hafa þó sinn stílinn hvor og efnistökin eru mjög ólík.

Takahata heillaðist fyrst af teiknimyndaforminu sem ungur maður þegar hann sá ókláraða útgáfu af frönsku myndinni Le Roi et l’Oiseau (Konungurinn og hermikrákan) sem byggð var á sögu eftir H.C. Andersen.

Á þessum tíma lærði hann franska bókmenntafræði og var ekkert farinn að velta fyrir sér frama tengdum teiknimyndum. Þegar hann útskrifaðist úr Háskólanum í Tokyo, árið 1959, og var að leita að vinnu, benti vinur hans honum á að Toei Animation væru að auglýsa eftir aðstoðarleikstjóra. Takahata, með enga reynslu af leikstjórn eða hreyfimyndagerð, sótti um og var ráðinn á staðnum.

Samkeppnin innan fyrirtækisins var hins vegar hörð og það tók Takahata dágóðan tíma að sanna sig svo að hann fengi að leikstýra. Árið 1965 fékk hann svo stóra tækifærið. Úr varð fyrsta leikstjórnarverkefnið hans, Hols: Prince of the Sun (Taiyō no Ōji Horusu no Daibōken, einnig þekkt sem The Little Norse Prince og Horus: Prince of the Sun).

Því miður gekk myndinni ekki sem skyldi og bombaði þegar hún kom út árið 1968. Þetta er hinsvegar merkileg mynd fyrir margar sakir og hún markaði ákveðin kaflaskil í japanskri teiknimyndagerð. Hún tæklaði fullorðinslegri þemu en áður hafði verið gert, var tæknilega vel unnin og síðast en ekki síst leiddi hún saman Miyazaki og Takahata í fyrsta sinn. Þetta var einmitt fyrsta stóra breikið hjá Miyazaki líka – en hann sá um umhverfishönnun og lykilhreyfingar.

Vegna óvinsælda Hols var Takahata lækkaður í tign og við tóku nokkur ár af ströggli sem endaði með því að Takahata gafst upp og yfirgaf Toei ásamt Miyazaki árið 1971. Saman ætluðu þeir að gera teiknimynd byggða á Línu Langsokk og þeir ferðuðust alla leið til Svíþjóðar til að hitta sjálfa Astrid Lindgren. Það endaði ekki betur en svo að hún harðneitaði þeim um samstarf og þeir þurftu að snúa aftur til Japan með skottið á milli lappanna. Við tók leikstjórn á nokkrum þáttum í fyrstu syrpunni af Lupin the III.

Svo datt inn á borð til hans ansi stórt verkefni, að gera teiknimyndasyrpu um ævintýri Heiðu (Arupusu no shôjo Haiji) eftir bók Johanna Spyri. Takahata endaði á að leikstýra öllum 52 þáttunum og hann hafði Miyazaki sér til halds og trausts við framleiðslu þáttanna.

Heiða sló í gegn um allan heim – meðal annars á Íslandi, en það eru ansi margir íslendingar sem eiga góðar minningar um Heiðu, Pétur og afa gamla. Þættirnir eldast ofsalega vel og ég get klárlega mælt með fólk endurnýi kynnin við þessa gömlu vini. Ráðist var í viðamikið verkefni fyrir nokkrum árum á netinu að þýða alla Heiðu þættina yfir á ensku og nú er hægt að nálgast flesta þeirra á Youtube.

Heiða er enn feykivinsæl í Japan og árlega fara þúsundir Japana til Sviss að skoða Alpana vegna ástar sinnar á þáttunum.

Takahata leikstýrði nokkrum þáttaröðum í viðbót, meðal annars 3000 Leagues in Search of Mother (Haha wo tazunete sanzenri), Future Boy Conan (Mirai shônen Konan) og Anne of Green Gables (Akage no An).

Árið 1982 leikstýrði hann svo fyrstu myndinni sinni í fullri lengd í 14 ár, Gauche the Cellist (Sero hiki no Gôshu). Hún hlaut fínar viðtökur og góða dóma. 1985 urðu svo stór kaflaskipti í lífi Takahata, því þá stofnuðu hann, Miyazaki og framleiðandinn Toshio Suzuki hið goðsagnakennda Studio Ghibli.

Takahata er ekki nærri því eins afkastamikill og kollegi hans, en hann hefur einungis leikstýrt 5 Ghibli myndum á 28 ára tímabili (1985 – 2013). Þær eru allar vel þess virði að sjá og mjög ólíkar. Fyrsta Ghibli myndin hans var hin gríðarlega niðurdrepandi en gullfallega Grave of the Fireflies (Hotaru no haka) frá 1988, sem Roger Ebert kallaði eina bestu stríðsmynd allra tíma.

Svo árið 1991 kom rómantíska dramað Only Yesterday (Omohide poro poro). 1994 mætti Takahata á svæðið með eina allra furðulegustu Ghibli myndina, súra grín-dramað Pom Poko (Heisei tanuki gassen ponpoko), myndin inniheldur m.a. þvottabirni sem fljúga um á… eistunum. Ekki spyrja. Fimm árum seinna, rétt fyrir aldamótin kom út gamanmyndin My Neighbors the Yamadas (Hôhokekyo tonari no Yamada-kun).

2008 byrjaði hann svo á The Tale of Princess Kaguya (Kaguyahime no monogatari) en hún kom ekki út fyrr en árið 2013. Í hinni frábæru heimildarmynd The Kingdom of Dreams and Madness (2014) er einmitt fylgst með framleiðsluferlinu á Princess Kaguya – algjört skylduáhorf fyrir alla sem hafa áhuga á Ghibli. En þar kemur meðal annars fram að Takahata nennti eiginlega ekki að gera myndina og framleiðandinn hans, Yoshiaki Nishimura, hafði ekki undan við að draga hann á lappir og elta hann á röndum til að sjá til þess að Takahata myndi klára verkið. Myndin fékk gríðarlegt lof og þótti vera ein af bestu myndum 2013 og var tilnefnd til fjölda verðlauna og fékk m.a. Óskarstilnefningu sem besta teiknimyndin, en tapaði fyrir Big Hero 6 (ಠ_ಠ).

Takahata er kominn yfir áttrætt en hefur ennþá ekki gefið út yfirlýsingu um að hann sé sestur í helgan stein – ólíkt Miyazaki, sem virðist gefa út yfirlýsingu þess efnis annað hvert ár, bara svo hann geti tekið það til baka. Miðað við hversu langan tíma The Tale of Princess Kaguya tók í framleiðslu, þá eru ágætis líkur á að hún verði síðasta myndin hans.

Þrjár bestu myndir Isao Takahata eru (ég mæli eindregið með að fólk horfi á myndirnar á frummálinu með enskum texta):

 

Grave of the Fireflies

Hugsanlega sorglegasta mynd allra tíma. Ótrúlega falleg, en brútal mynd sem skilur mjög fáa eftir ósnortna. Að mörgu leyti mjög tilfinningalega “manipulative” og gerir allt sem hún getur til að kreista fram tárin, en virkar samt fullkomlega. Í stuttu máli fjallar hún um tvö systkini, Setsuko og Seita, sem enda munaðarlaus á vergangi í Japan í seinni heimstyrjöldinni. Þessi endar ekki vel.

 

Only Yesterday

Gullfalleg sveitarómantík af bestu gerð. Myndin gerist árið 1982 og fjallar um Taeko sem er 27 ára borgarmær sem ákveður að stinga af frá amstri borgarinnar og heimsækir fjölskyldumeðlimi í sveitinni. Þegar í sveitina er komið byrja endurminningar úr æsku að ásækja hana. Fullkomin blanda af trega, húmor og rómantík.

 

The Tale of Princess Kaguya

Þessi mynd er algjört augnakonfekt. Nánast hver einasti rammi í myndinni er listaverk útaf fyrir sig. Myndin er byggð á japönsku þjóðsögunni The Tale of the Bamboo Cutter (Taketori Monogatari). Bambusskeri finnur pínulitla stúlku inni í bambusvið og ákveður að ala hana upp ásamt konu sinni. Best er að segja sem minnst um framvinduna í myndinni því hún fer í allskonar skrítnar og skemmtilegar áttir og ég mæli eindregið með að fólk kíki á þetta meistaraverk.