Það er greinilegt að stutt sé í jólin, því af himnum ofan höfum við fengið okkar fyrstu stiklu fyrir nýjustu mynd litla, pattaralega snillingsins Ben Wheatley, High-Rise. Myndin hefur verið fljótandi um hátíðar erlendis í tvo mánuði núna, en síðan hún var tilkynnt fyrir nánast tveimur árum hefur lítið sem ekkert flotið á yfirborðið að undanskildum nokkrum ljósmyndum.

Söguþráðurinn hefur hins vegar verið þekktur í nánast hálfa öld, enda er myndin byggð á samnefndri bók, eftir J.G. Ballard, sem gerist innan veggja glæsilegs háhýsis á áttunda áratugnum. Þar lifa íbúar við bestu möguleg kjör og lúxusa án nokkurra vandræða í sínum eigin heim. Smám saman fer þó lífið innan veggjanna að hrörna og standa íbúarnir frammi fyrir yfirvofandi og blóðugri klassaskiptingu sem hótar að færa þau öll aftur á steinöldina.
Tom Hiddleston leikur aðalhlutverkið, en aðrir hressir og breskir töffarar láta einnig sjá sig, eins og Jeremy Irons, Sienna Miller og Luke Evans (eh?).

Stiklan gefur lítið upp og er strúktúruð sem auglýsing fyrir blokkina, þannig þið getið andað léttar og leyft augunum að njóta.

Þetta verður eitthvað, enda er herra Wheatley einn áhugaverðasti leikstjórinn starfandi í dag, með nokkra gimsteina undir beltinu. Við þurfum að bíða fram á næsta ár eftir þessari, en þangað til getiði kynnt ykkur ferilinn hans og orðið enn spenntari.