Það gerist oft í íslenskum kvikmyndahúsum að bíóupplifunin skemmist eða verður verri vegna annarra áhorfenda í salnum. Áreitin eru mismunandi og hafa mismikil áhrif á áhorfendur. Jafnvel svo mikil að bíóupplifunin skemmist og myndin fær alls ekki að njóta sín.


Í fyrra lenti ég í slíkri upplifun þegar ég fór á Muppets Most Wanted sem pirraði mig svo ógurlega mikið að ég get ekki sagt að ég hafi notið myndarinnar. Það var ekki fyrr en ég var komin heim og litli bróðir minn fór að minnast á sum atriðin að ég fór að hlæja. Venjulega þegar ég fer á barnamyndir þá lækka ég venjuleg bíó viðmiðin og sýni umburðalyndi enda börnin enn að læra að fara í bíó. Þegar hegðunin er samt allar 90 mínúturnar og jafnvel í hlénu líka þá fá meira að segja þeir allra þolinmóðustu nóg. Hvernig hegðun á ég við?

 

1. Talað (hrópað) alla myndina
Já ég skil að barnið hafi spurningar um eitt og annað, sérstaklega þegar það er á enskri mynd og skilur ekki neitt hvað persónurnar eru að segja. Þegar hrópin beinast samt ekki einu sinni að myndinni heldur hvað barnið vill fá í bakaríinu eða sjoppunni og hvað það gerði í leikskólanum deginum áður þá þarf að grípa inn í. Það þarf að minna barnið á að í bíó hvíslum við í stað þess að hrópa. Við erum ekki ein í bíó, við þurfum að sýna kurteisi og tillitssemi fyrir hina bíógestina. Minna þau á að þau eru í bíó með fullt af öðru fólki.

Babies-in-Movies2. Hlaupið

Þessu hef ég nokkrum sinnum lent í og oft pælt í hvað í ósköpunum foreldrarnir eða þeir sem eru með barnið eru að pæla þegar barnið hleypur um allt með tilheyrandi látum þegar á myndinni stendur. Á þessari umræddu Muppets sýningu hljóp barnið í röðinni fyrir framan mig fram og til baka röðina sína, klifraði í sætinu sínu og ætlaði að klifra yfir sætin og hlaupa í röðinni minni. Þá kveikti amman sem var með krakkann á perunni og fattaði að þetta væri ekki viðeigandi. Stoppaði svo barnið í klifrinu en leyfði henni að halda áfram að hlaupa í sinni röð. Þarna var ég í raun afar þakklát fyrir að ég sat ekki fyrir framan þar sem truflunin var án efa mun meiri.

3. Síminn
Meira að segja börnin eru farin að nota símann í bíói. Nokkrum röðum neðar glittaði alltaf í síma og oft á tíðum var ég ekki viss hvort barnið væri að kíkja á klukkuna eða einfaldlega spila leik (síðarnefnda hef ég áður lent í). Ekki leið samt á löngu þar til ég sá af hverju barnið taldi þetta í góðu lagi. Pabbinn var kominn í hörku sms-samtal sem truflaði alveg tvö söngatriði í myndinni og eyðilagði góðan brandara. Er fólk ekki að fatta að það er fyrirmyndir barnanna og börnin herma eftir til að líkjast okkur? Getur fólk virkilega ekki slökkt á símanum í tvo tíma til að njóta þess að vera í bíó með börnunum sínum?

Boðskapur:
Þó börnin séu öll enn að læra og gleyma sér oft í þá þurfa þeir fullorðnu að aðstoða þau. Það er svo mikilvægt að þeir fullorðnu kenni þeim réttu hegðunina í bíói. Við erum ekki ein í bíó, við þurfum að sýna kurteisi og tillitssemi fyrir hina bíógestina. Hávaði, sími og óviðeigandi hlaup trufla. Fyrir næstu barnamynd ætla ég að vona að einhverjir foreldrar taki sig til í andlitinu og ræði við börnin um hvað er í lagi að gera í bíói og hvað er ekki í boði. Hjálpumst að og skemmum ekki bíóupplifanir næstu kynslóða.

PS. Ekki fara með ungabörn á miðnætursýningar (já, það hefur gerst).