Stutta útgáfan:
Tveir af betri leikjum PS3 vélarinnar í enn betri grafík en áður. David Cage og félagar hjá Quantic Dream mega ennþá vera mjög stoltir af þessum leikjum þar sem þeir bjóða upp á eina gangvirkustu spilun sem hægt er að fá og má best lýsa sem Telltale ævintýri á sterum. Verst er að nokkrir stórir gallar sem voru í PS3 útgáfunum eru enn til staðar hér.

8

 

 

Langa útgáfan:

„Remaster“. Þetta er athyglisvert orð. Í kvikmyndum eru myndir endurgerðar árlega með nýjum leikurum, leikstjórum og öllu sem fylgir. Remaster hinsvegar er ekki beint endurgerð heldur endurútgáfa í fallegri pakkningum með endurbættri grafík. Sumir hata þetta, aðrir ekki. Eins og ég lít á þetta þá fær maður tækifæri til að spila leiki sem maður missti af á enn betra verði og Heavy Rain / Beyond : Two Sould eru einmitt leikirnir sem eiga skilið að fá endurútgáfu.

Endurspilunargildið í þessum leikjum er aðdáunvert. Nánast allar ákvarðanir sem þú tekur hafa áhrif á heildar söguna og ein mistök, allavega í Heavy Rain, geta kostað einn af fjórum spilanlegum karakterum lífið. Þú tekur ákvörðun fyrr í leiknum og sérð svo bein áhrif í sögunni miklu seinna og opnast þá eða lokast ákveðnar leiðir sem hægt er að fara. Þetta er brilljant leið til að gefa kost á að fara oftar en einu sinni í gegnum leikina án þess að fá sömu upplifun. Í endurspiluninni á Heavy Rain tókst mér t.d. að bjarga karakter sem hefði dáið þegar ég spilaði hann fyrst og fékk ég því ekki sömu niðurstöðu í lokin.

1762148

Þó að leikirnir líti alveg töluvert betur út núna en þeir gerðu þá er þetta auðvitað ennþá sömu leikir og voru gefnir út fyrir nokkrum árum. Hljóðblöndunin í Heavy Rain er ennþá í algjörri steik, þar sem tónlist byrjar og hættir af handahófi til að skapa drama, andlit eru misfalleg og umhverfið ótrúlega misjafnt. Handritin er oft ekki alveg samrýnd sjálfum sér og nokkrar plot holur hér og þar. Sum sambönd á milli karaktera eru þrýst og oft á tímum mjög óútreiknanleg. Fínpússunin fyrir PS4 sést en hún er ekki rosalega áberandi. Það eru 4 ár á milli leikjana og lítur því Beyond miklu betur út en nokkurn tíman Heavy Rain. Andlitin eru áheyrslu atriði í báðum leikjum þar sem leikarar voru fengnir inn til að taka upp öll atriðin. Willem Dafoe og Ellen Page eru bæði mögnuð í Beyond og sést hvað frammistöður í leikjum verða margfalt betri þegar leikarar/leikraddir fá að leika atriðin fyrir framan myndavél, enda er það að verða algengara með hverjum leik.

Spilunin er ekki allra. Leikurinn spilast eins og ein stór kvikmynd þar sem þú þarft að smella á takkana sem koma á skjáinn þegar eitthvað gerist. Þú færð auðvitað að hreyfa persónurnar en ekki búast við því að vera hluti af miklum hasar nema bara að vera með fljót viðbrögð yfir hvaða takka þú átt að ýta á. Þetta er umdeilt og kannski ekki nauðsynlegt en Quantic Dream skapar gagnvirkar kvikmyndir þar sem þú ræður sögunni og því er auðvelt að sætta sig við lágmarksspilun þegar sagan er svona góð. Það er ákveðin upplifun að fara beint frá Heavy Rain yfir í Beyond og sjá greinilegan gæðamun á leikjum. Þeir lærðu svo mikið í frásögn, spilun og framkvæmd að þú finnur skýran mun.

Stórir handritsgallar í Heavy Rain, sem gerðu mörg af dramatískustu atriðum að kjánalegum bröndurum, eru ekki til staðar í Beyond. Þeir virka því betur þegar þeir eru spilaðir bak í bak og gefa þér ákveðna upplifun og tengingu við stúdíóið Quantic Dream og hvernig þær hafa farið fram á við.  Stórkostlegt fyrirtæki sem framleiddi tvo frábæra leiki sem hafa þó ýmsa galla sem hægt er að reyna horfa framhjá.

Þetta er því alveg skotheldur pakki með tveimur æðislegum leikjum og engin ástæða fyrir því að skella honum ekki í safnið.