Þegar maður horfir á Harold & Maude í dag sést svo greinilega hvaða kvikmyndagerðamaður hefur svo sótt heilmikinn innblástur í sinn eigin persónugerða stíl (hint: hann gerði Rushmore). En burtséð frá því er fátt sem hefur stoppað mig frá því að elska þessa mynd síðan ég sá hana fyrst, sérstaklega einlæga hjartað sem hún hefur þrátt fyrir að vera dökk, sérkennileg og kaldhæðin frá byrjun til enda. Þar fyrir utan fjallar hún líka um eitt skringilegasta rómantíska skjápar kvikmyndasögunnar, og á sinn súra, sjarmerandi hátt eitt það eftirminnilegasta.

Hann er nýskriðinn yfir tvítugt, hún að nálgast áttrætt (hugsið um ‘Bridge Over Troubled Water’ sketsinn úr Fóstbræðrum, nema bara hlýrri, skemmtilegri tón). Hann glímir við óhamingju, félagslega einangrun og er haldinn athyglissjúkri sjálfseyðingarhvöt á meðan hún springur af smitandi lífsorku. Þetta er dásamleg dýnamík hjá þeim, æðisleg mynd bara… furðuleg, existensialísk og meinfyndin. Bud Cort og Ruth Gordon eru æðisleg, og Cat Stevens-músíkin spillir nákvæmlega ekkert fyrir.