Sutta útgáfan: Létt endurvinnsla á Groundhog Day sniðinu yfir í slasher mynd sem býður upp á nægilegan hlátur til að láta mann gleyma skort á frumleika.

 

Langa útgáfan:

Happy Death Day, nýjasta mynd leikstjórans Christopher Landon (líklega best þekktur fyrir fimmtu Paranormal Activity) notast við sama grunnstef og ein allra besta gamanmynd tíunda áratugsins Groundhog Day (1993) gerði þ.e. að aðalpersónan (hérna háskólaneminn Tree) festist í tímalykkju og endurlifir sama daginn aftur og aftur. Lokkandi viðbótin við Happy Death Day er hinsvegar sú að í stað þess að enda ótalda dagana með svefni þá felur lykkja Tree í sér það að hún sé myrt ítrekað af sama grímuklædda aðilanum.

Að flokka Happy Death Day eingöngu sem hryllingsmynd væri rangt því handritið leggur í heildina mikið meiri áherslu á grín. Morðin á Tree (líflega leikin af Jessica Rothe) verða fljótt viðfangsefni helstu brandara myndarinnar og þar sem hryllingsmyndir vlija vanalega hræða áhorfendur reynir Happy Death Day að fá þá til að brosa.

Tímalykkjur í Hollywood kvikmyndum fúnkera oft eins og sjálfshjálparbækur fyrir söguhetjurnar sem lenda í þeim. Endurtaktu mistökin þín aftur og aftur þar til þú finnur „lausnina“. Í sjálfu sér er þessi tegund af sögusögn a.m.k. jafn gömul og goðsagnir forn-Grikkja (Sisyphus dæmdur til að ýta stórum stein upp á hæð, en steinninn rúllar alltaf aftur niður) og er líklega þekktari síðar í speki Búddisma um endurlífgun, karma og nirvana.

Nýverið hefur verið tilnhneging til að nota formið einnig sem hálfgerða yfirheyrslu á skort ímyndunarafls í geirunum sem þær tilheyra. Framtíðarhasar Doug Liman og Tom Cruise The Edge of Tomorrow (2014) setti t.d. áherslu á líkindi sögustílsins við táknmyndir og grunnspekina sem flestir tölvuleikir tileinka sér (lifðu, deyðu, endurtaktu var slagorð myndarinnar) og slasher-harmleikurinn Triangle (2009) notaði formið til að undirstrika hlutverk sem stöðugar karaktertýpur í slasher myndum eru fastar inn í á lúmskan hátt. Myndirnar einblína þó helst á tímalykkjur sem undirstöðu breytinga (eða, líkt og í ráðgátu Christoper Nolan Memento (2000), fjarveru þeirra) fyrir söguhetjuna. Hinn eigingjarni verður þannig gjafmildur, hugleysinginn verður hugrakkur o.s.frv.

Happy Death Day bregður ekki frá þessu stefi en hendir þó inn nokkrum skemmtilegum flækjum til að hrista aðeins upp í afleiðingum hvers dauða og þess sem er í húfi fyrir Tree á meðan hún reynir að leysa sitt eigið morð og átta sig á að lifnaðarhættir hennar voru kannski ástæðan fyrir þessu til að byrja með.

Myndin notar sömuleiðis stöðu sína til að grínast aðeins með hversu lítið slasher myndir hafa þróast síðan að meistarastykki Wes Craven Scream (1996) og síðar bylting stafrænnar kvikmyndatöku breyttu nálgun hryllingsmynda í kringum aldarmótin. Þrátt fyrir nokkra demanta innan um kolin hafa endurtekning og lítil fjölbreytni gert slasher geirann hálf úrheltan og í bráðri þörf á endurhalningu og þótt að Happy Death Day bjóði lítið sem engin svör við þeirri klípu þá er hún sátt við að pota prakkaralega í Hollywood og biðja um eitthvað nýtt (ekki ólíkt ofurhetjufarsanum Deadpool (2016)).

Þetta er kannski smá hræsni af hálfu Landon og handritshöfundarins Scott Lobdell þar sem myndin þeirra dregur augljóslega mikið úr Scream (látinn ástvinur + áverkar úr fortíðinnni = hryllingur) sem og fjölda öðrum til að byggja upp dramað í kjarna sögunnar en myndin tekur sig sjaldnast nógu alvarlega til að kallast beint eftirlíking og sleppur því fyrir vikið sem skemmtileg dægrastytting, en lítið meira en það.