Aðalpersónur eru oftast notaðar sem siðferðilegir klettar kvikmynda, hvort sem það sé ein persóna sem er siðblind eða önnur sem er réttlát. Við annað hvort hötum eða höldum með persónum út frá aðgerðum þeirra og dómgreind, sem mótar á móti persónuleikann. Í flest skipti er auðveldast að skapa persónu sem áhorfandinn heldur með, með því að gera hana að lítilmagna sögunnar, réttlátan og óbugandi varðandi skoðanir sínar. En hvað með þegar þær blekkja áhorfandann?

Þessi hugsun kom til mín eftir að ég horfði nýlega aftur á 300 eftir Zack Snyder. Myndin hefur alltaf verið skítsæmileg að mínu mati og ekki skipt miklu máli, en við þetta áhorf (kannski það 4. eða 5. í heildina) tók ég eftir ansi einkennilegum hlut við hana: Söguhetjurnar eru þröngsýnar og gjörsamlega óviðkunnanlegar.

Madurinn2-2Í stríði á milli þeirra sem myrða þá ófullkomnu og trúa á „hreina“ blóðlínu; og þeirra sem taka við öllum með opnum örmum og styðja heimsvæðingu; sé ég ekki hvernig ég get stutt hina fyrrnefndu. Ég er auðvitað ekki að kalla neinn rasista eða fasista hér, en það er meira en skrýtið að risastór sumarsmellur skuli skella svona brengluðum sjónarmiðum á jafnrétti og réttlæti. Að segja að þetta sé af ásettu ráði gert væri að henda of stóru beini í átt aðstandenda 300 (bronsaðir sixpakkar með sverð selja, voða einfalt), en ef myndin hefði kannsk potað í hugmyndina um að það sem hún er að selja sé frekar steikt, gæti hún lifað sem bæði gáfuð ádeila og drulluflott epík. En nei, hún hafði meiri áhuga á „Davíð og Golíat“-formúlunni, sem er ekki einu sinni réttlætanleg hér. Greyið Persarnir eru sýndir sem ófríðir galdrakarlar og bókstaflegar ófreskjur sem vilja ekkert meira en „eyðileggja heilnæmu tilvist Spartverja“ og drottna. Já það er að einhverju leiti það sem þeir vildu í alvörunni, en ef valið er á milli gæjanna sem hefðu í raunveruleikanum hlegið að krypplingnum Ephialtes og sparkað honum af klettinum, kýs ég frekar teppaframleiðendurnar.

Ég er samt ekki eins mikið á móti 300 og ég gef kannski í skyn, hún er bara gott og auðvelt dæmi um þessa brengluðu hugmynd um aðalsöguhetju sem mér finnst áhugaverð. Eftir að 300 kom mér á sporið, fór ég að hugsa um öll hin skiptin sem Davíð er af engri ástæðu hafður í hærra áliti en Golíat, nema af því að myndavélin einblínir á Dabba. Hvað með allar íþróttamyndirnar þar sem árangursríka og farsæla liðið er illmennið, á meðan að Mighty Ducks eða Daniel-san hafa bara svo fjári stórt hjarta! Gefum þeim séns og hættið að sigra svona mikið!

Madurinn3-2Hickory Huskers liðið í myndinni Hoosiers, fyllt einungis af hvítum leikmönnum, fangar athygli amerísku þjóðarinnar árið 1952 þegar að það vinnur sér leið að meistaratitlinum í körfubolta. Hverjum keppa þeir á móti í lokaleiknum? South Bend Central Bears, lið sem er fyllt einungis af svörtum leikmönnum. Nefndi ég ekki örugglega að myndin gerist árið 1952? Því það er eitthvað rangt við að hvetja áfram hvítt lið á tímabili sem liðsmenn Central Bears mættu ekki einu sinni sitja í sama svæði og liðsmenn Huskers í rútu. Enn og aftur, kannski fullmikið að kalla aðstandendur Hoosiers rasista, en þetta er frekar afvegaleidd tilraun til að fá samúð til aðalsöguhetjanna.
Ég ætla ekki einu sinni að byrja á Patch Adams og fáranlegu löngun hennar til að fá þig til að elska óhæfan og vitlausan lækni sem er bara „of hipp og kúl fyrir gömlu steingervingana í stjórninni til að skilja“.

Jafnvel nær þetta til Vélanna í The Matrix-myndaheiminum, sem verðlauna mörg ár af fordómum gegn- og útrýmingu vélmenna sem við fremjum, með okkar eigin ósýnilega Edengarði, eins og Morpheus segir sjálfur: „Þú hefur verið settur í fangelsi sem þú getur hvorki séð né fundið.“ Ef ég á að vera hreinskilinn vissi Cypher alveg hvað hann var að tala um.

Það geta þó ekki bara verið tilfelli þar sem punktinum er tapað, augljóslega hljóta aðrir að fara í þveröfuga átt með bæði þessa formúlu og sjálfa pælinguna um að hvetja áfram aðalsöguhetjuna. Ég fór að hugsa meira um það og fljótlega fann ég þessar tvær myndir sem ættu að passa hér vel við: Memento og The Cabin in the Woods. [SPOILERAR FYRIR BÁÐAR MYNDIR HÉR FYRIR NEÐAN]

Madurinn4Í Memento fylgjum við hinum minnislausa Leonard Shelby á meðan að hann leitar að morðingja eiginkonu sinnar, en vegna þess að Shelby hefur ekkert skammtímaminni upplifir áhorfandinn atburðarásina á sama hátt og hann. Við tengjumst honum fljótt og viljum sjá hann grípa sökudólginn, sérstaklega eftir að við sjáum fleira og fleira fólk misnota ástandið sem greyið maðurinn er í, sér til bæði skemmtunar og eigin hagnaðar. Leonard er svo staðráðinn í för sinni og í gegnum myndina komumst við að því bara hversu mikið hann saknar eiginkonu sinnar og hversu ómögulegt það er fyrir hann að lifa eðlilegu lífi. Jafnvel það eina sem hann á eftir um hana, minningarnar, er að hverfa smám saman burt. Hann er umkringdur leiðindarfólki sem áhorfandinn getur ekki treyst og þegar að það virðist sem að henfndarför Leonards sé að ná hápunkti sínum, sleppir myndin atómsprengju: Hann er löngu búinn að myrða sökudólginn, hann bara man ekki eftir því. Ekki bara það, heldur til að viðhalda tilgangi í lífi sínu, hefur bæði hann og það sem virðist vera eini vinur hans logið að sjálfum sér. Lygi sem hefur komið hver veit hve mörgum í gröfina.

Christopher Nolan skapaði hérna persónu sem þú vorkenndir umsvifalaust og vildir sjá ná árangri. Gölluð hetja sem á sama tíma fylgir öllum sporum formúlunnar, fyrir utan það að hann er geðveikur raðmorðingi. Þetta var heldur ekki bara ódýr flétta til að breyta söguhetjunni í ófreskju, heldur breyttist hann í eitthvað sem áhorfandinn skilur ekki fullkomnlega í fyrstu. Já Leonard myrti óþekktan fjölda af mönnum og sá síðan til þess að hann gleymdi því, en það er eitthvað bæði fallegt og sorglegt við tilhugsunina að hann getur ekki þraukað án þess að hafa þennan endapunkt til að miða á. Hann er í raun ekki slæmur gæji, bara ráðviltur einstaklingur sem veit ekkert betra. En það kemur á endanum allt niður á áhorfandanum hvort að Leonard sé traustverður. Eigum við að sakfella hann? Eða eigum við að sammþykkja hann?

Madurinn5-2Þá kem ég að hinu dæminu mínu, The Cabin in the Woods. Í henni fylgjumst við með háskólafólkinu Dana, Curt, Marty, Jules og Holden sem fara upp í sumarbústað frænda Curt. Á sama tíma sjáum við hóp vísindarmanna gera bústaðinn tilbúinn fyrir fólkið, en hvers vegna er ekki vitað. Við vitum bara að þetta eru nafnlausir menn í hvítum sloppum með óþekkta og því grimma áætlun. Nema þeir eru ekki beint nafnlausir, og þeir eru frekar fyndnir og virðast vera ágætir náungar. En aftur að söguhetjunum okkar, sem koma sér fyrir í bústaðnum. Eftir því sem líður á myndina fer hver og ein persóna að falla í flokk stereótýpa hryllingsmynda og fljótlega fer blóðið að flæða villt um skjáinn eftir að þau sleppa fjölskyldu af morðóðum uppvakningum á húsið, Evil Dead-style.

Smám saman fer heildarmyndin að sýna sig, en eftir því sem söguhetjurnar okkar, sem við þekkjum varla, eru limlestaðar hrottlega hver á eftir annari sannfærumst við bara meira um það hversu illir þessir fjandans hvítflibbar á rannsóknarstofunni eru. Kaldhæðnin er þó sú að í raun vitum við jafn mikið um hvítflibbana og við gerum um hetjurnar. Á endanum setur myndin í 5. gír og allt fer í háa loft, með þeim afleiðingum að þeim tveimur hetjum sem standa eftir er sagt að allt þetta var gert til að uppfylla kvóta sem illir guðir þarfnast; annars deyjum við öll. Þannig illmennið reynist ekki vera þessir starfsmenn ríkisstjórnarinnar, heldur stórir, gjörsamlega sálarlausir guðir sem búa neðanjarðar. Ja-há.

Og hvað gera hetjurnar við þessar upplýsingar? Fordæma okkur öll til tortýmingar. Þetta kalla ég sko áhrifarík persónuskrif.
Ekki bara eru þessar stoðir hryllingsmynda sem við eigum að halda með gjörsamlega eigingjarnar, heldur einnig blindaðar af réttvísi sem er ekki til staðar. Þú veist ekki alveg hvað þér á að finnast í endanum og margir kvarta yfir því hversu asnalegt það sé að heimurinn endi, eins og þau myndu frekar vilja sjá persónurnar fórna sér fyrir hagnað mannkynsins. Myndin skapaði vísvitandi þversögn með endasenunni þar sem önnur hvor útkoman væri bæði flott og átakanleg, og áhorfendur væru tvískiptir um skoðanir sínar. Hún setti bókstafleg örlög heimsins í hendur fólks sem þú kemur venjulega á hryllingsmyndir til að sjá vera slátrað, og á móti slátra þau öllum öðrum.

Á endanum er ég ekki að kvarta yfir afvegaleiddu tilraunum þeirra kvikmynda sem hvetja hetju sína óréttlætanlega áfram. Ég er ekki heldur að biðja um að allir fari að benda á sjálfan sig með „ég veit að þetta er siðferðislega rangt“-puttanum. Við þurfum alltaf hið slæma með hinu góða, en það sem ég væri til í að sjá fleiri gera er að kafa ofan í sjálfa hugmyndina um þessa fullkomnu aðalsöguhetju. T.d. var illmennið Elijah Price í Unbreakable gott dæmi um krufningu á þessum ófullkomna aðalóvin. Það er eflaust til gott dæmi um krufningu á hetjunni sem ég veit ekki um, en sú staðreynd að það er ekki vel þekkt, finnst mér sorglegt.

 

 

_