Nicolas Winding Refn er perri – og sem betur fer er hann að vinna að perramynd. Fyrsta kvikmyndin hans í þrjú ár ferðast inn í glamúrlíf módela í Borg Englanna þar sem aðalsöguhetjan okkar, Jesse – ung og falleg rós – fellur fyrir lostinu og girndinni sem slíkt líf bíður uppá. Fegurð hennar er þó ekki lengi að koma henni í vandræði, og áður en langt um líður fer tilvera hennar að molna í sundur eftir því sem blóðið flæðir og ofbeldið dynur.

Eftir þónokkra bið, a.m.k. hjá undirrituðum, höfum við loks fengið okkar fyrsta smjörþef af myndinni, en í vikunni kom glæsileg stikla fyrir The Neon Demon, sem þið finnið hér fyrir neðan. Eins og titillinn gefur til kynna er hún böðuð í neónlitum og glitri með mörgum fyrirboðum um óhugnaðinn sem býr að innan. Endilega gæjist innfyrir.

Hún verður frumsýnd á Cannes í næsta mánuði og áætluð frumsýning verður vonandi í júní, en hvort við á Klakanum fáum hana í almenna dreifingu verður bara að koma í ljós. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi…

Versógú.