Stockfish-Logo16Nú nálgast kvikmyndahátíðin Stockfish Film Festival óðfluga en hún mun standa yfir dagana 18-28. febrúar í Bíó Paradís og verður boðið þar upp á mikla veislu fyrir kvikmyndanirði.

Meðal þeirra mynda sem verða sýndar á hátíðinni í ár eru Son of Saul, Diary of a Teenage Girl, The Witch, Victoria, The Assassin og Z For Zachariah og meðal gesta verður tónskáldið Jóhann Jóhannsson og Lazslo Rajk, leikmyndahönnuður Son of Saul en hann hannaði einnig t.d. leikmyndina í The Martian og vinnur þessa dagana við að sjá um leikmyndina fyrir nýja íslenska mynd eftir Kristínu Jóhannesdóttur sem ber vinnuheitið Alma og verður að öllum líkindum frumsýnd snemma á næsta ári.

En fyrir utan að sýna margt af því helsta sem kvikmyndaheimurinn hefur haft upp á bjóða undanfarið þá er haldin stuttmyndakeppni á Stockfish þar sem fólk sendir inn stuttmyndir og nokkrar þeirra eru valdar til að taka þátt í keppni sem ber nafnið Sprettfiskur. Myndirnar eru sýndar í einum pakka nokkrum sinnum á hátíðinni og síðan í lokin er ein þeirra sem sigrar keppnina og er valin Sprettfiskur ársins. Í fyrra var það myndin Foxes sem vann fyrsta Sprettfiskinn en hún var framleidd af Evu Sigurðardóttur. Nú í dag var tilkynnt hvaða myndir það voru sem komust inn í Sprettfiskskeppnina 2016 en sex myndir urðu fyrir valinu í þetta skiptið. Þær sex myndir sem komust inn eru:

 

Eitt Skref
Leikstjóri: Aron Þór Leifsson
Framleiðendur: Bjarni Svanur Friðsteinsson, Aron Þór Leifsson, Sturla Óskarsson og Þorsteinn Pétur Manfreðsson

 

Like it’s up to you
Leikstjóri: Brynhildur Þórarinsdóttir
Framleiðendur: Fridhemfilm og Brynhildur Þórarinsdóttir

 

Secret
Leikstjóri: Jakob Halldórsson
Framleiðendur: Jakob Halldórsson, Stella Rín Bietveld og Northern Vision ehf

 

Sjúkdómarinn
Leikstjóri: Grétar Magnús Grétarsson
Framleiðandi: Grétar Magnús Grétarsson

 

Svart hvítar fjaðrir
Leikstjóri: Sigríður Björk Sigurðardóttir
Framleiðendur: Sigríður Björk Sigurðardóttir og Guðný Rós Þórhallsdóttir

 

The Empty Street
Leikstjóri: Snorri Sturluson
Framleiðandi: Dave Shelley

 

Myndirnar voru valdar af þriggja manna dómnefnd en meðlimir hennar í ár eru Davíð Óskar Ólafsson, Tinna Hrafnsdóttir og Vera Sölvadóttir.

Sigurmyndin hlýtur titilinn Sprettfiskur 2016 ásamt Canon EOS 70D vél frá Nýherja, umboðsaðila Canon á Íslandi.

Bíóvefurinn óskar öllum sem komust í keppnina innilega til hamingju.