Stutta útgáfan:
Leikurinn er fáranlega krefjandi, mun rasskella þig ítrekað en hvetur þig jafnframt áfram í að reyna þitt besta, aftur og aftur. Hann tekur allt sem að forverarnir gerðu rétt, hendir því í eina súpu og gefur frá sér besta eintakið hingað til.

9

 

 

Langa útgáfan:

Líkt og forverar sínir er Dark Souls 3 kvikindislega erfiður en þú getur samt aldrei kennt honum um að þú hafir dáið, þar sem bardagakerfið hefur aldrei verið jafn fullkomið, og vá hvað þú deyrð oft. Í hvert skipti sem þó horfir á karakterinn krjúpa og eldrauðu, grimmu stafina öskra á þig „YOU DIED“ geturðu ekki annað en hugsað að þetta hafi allt verið þér að kenna. Ekkert annað sem kemur til greina en að rífa sig í gang og reyna þetta aftur, enn eina ferðina. Vellíða og vanlíða í einum pakka.

Það fer ekki á milli mála að DS3 sé fallegur þrátt fyrir grimmdina. Grafíkin er stórglæsileg og öll vinnan sem hefur farið í minnstu smáatriði sést. Skrímslin hafa aldrei verið ógeðslegri, umhverfin eru hryllileg og kastalararnir glæsilegir. Allt þetta á að spilast ljúflega í 30 römmum á sekúndu í PS4 en því miður hrynur leikurinn oft undir 20 ramma og harmar það mig að segja að það hefur oft mikil áhrif á spilun leiksins. PC menn eru víst ekki stikkfrí frá þessum vandamálum heldur þar sem leikurinn hefur verið að hrynja í rammafjölda þar líka. Þetta gerist þó oftast þegar maður fer í stórt umhverfi þar sem leikurinn þarf að rendera stórt svæði.

Stóru svæðin eru þó á með því besta við leikinn. Það eru fjöldi leiða til að ferðast um hvert svæði og þar sem þú færð meiri upplýsingar um söguna eftir því hversu mikið af svæðinu þú skoðar þá endar maður á því að eyða miklu meiri tíma í að labba, skoða, deyja, skoða og deyja aðeins meira en maður ætlaði sér. Því lengra sem líður á leikinn ferðu að taka eftir ýmsum svæðum teiknuðum í bakgrunninn sem þú varst kannski áður á. Kastalinn sem þú byrjaðir í er kominn í ákveðna fjárlægð frá núverandi staðsetningu og líður þér því alltaf eins og þú sért að vinna þig meira og meira áfram í leiknum.  Aukapersónurnar sem þú hittir um heiminn eru margar hverjar áhugaverðar og talsetningin á þeim flestum framúrskarandi.

Leikurinn býður upp á nær endalausa samsetningu af karakterum. Það eru 10 classar sem hægt er að velja úr og ógrýnni af vopnum, brynjum og göldrum sem hægt er að setja saman á mismunandi hætti til að byggja ýmsar útfærslur í spilun.  Endurspilunargildið er því jafn mikið og það hefur alltaf verið í þessari seríu.

Ég get ekki talið öll augnablikin sem ég sat einfaldlega stjarfur, horfði á skjáinn og gapti yfir stærðinni á skrímslinu sem ég átti að drepa, svæðinu sem ég átti að tækla eða einfaldlega hversu flott umhverfið var. Dark Souls 3 er ótrúlega flottur, sanngjarn og skemmtilega krefjandi í spiluninni og hefur fullkomnað formúluna sína eins mikið og hægt er, eða svo virðist allavega vera. Það er bara frekar leiðinlegt að rammarnir skuli ekki vera stabílli á mikilvægum stöðum því ef svo væri þá ætti ég erfitt með að finna nokkurn skapaðan hlut sem væri að þessum leik.