“The greatest romance of all time!”

Ég lagði loksins í að horfa á Gone with the Wind. Ég var hikandi, fyrst og fremst út af lengdinni, en myndin er 238 mínútur, eða um fjórir tímar. Myndin er númer 162 á lista imdb yfir bestu myndir allra tíma. Hún var tilnefnd til 14 Óskarsverðlauna og vann 9, þar með talið fyrir bestu mynd og að auki ein heiðursverðlaun. En er hún virkilega svona góð?

Það var ekki mín reynsla. Mér fannst hálfgerð þrekraun að vinna mig í gegnum þessa mynd og ég hafði ekki mjög gaman af því. Útlitslega er myndin vönduð og flott, búningar og sviðsmyndir eru fyrsta flokks. Í aðalhlutverkum eru Clark Gable og Vivien Leigh en í raun er það Leigh sem er í aðalhlutverki þar sem Gable hverfur heilu hálftímana þegar hann fer í stríð og fangelsi og ég veit ekki hvað og hvað.

Þessi mynd á að vera ein svakalegasta ástarsaga allra tíma en ég fann ekki fyrir ástinni. Persóna Leigh er frekar spillt og leiðinleg og Gable er hálf hrokafullur. Þau virðast ekki beint ástfangin og ég náði aldrei að sökkva mér í söguna sem er hæg og ekki mjög áhugaverð. Leikarar ofleika, eins og tíðkaðist reyndar í þá daga og allt er mjög dramatískt. Besta augnablikið er fræga setningin frá Gable og maður þarf að bíða alla myndina eftir henni. Ég er ánægður með að hafa horft á þessa mynd en það var ekki beint ánægjuleg upplifun.

“Frankly, my dear, I don’t give a damn.”

 

 
Leikstjórar: Victor Fleming, George Cukor, Sam Wood