“The king will rise.”

Ég ákvað að taka annað rennsli og endurmat á Godzilla frá 2014. Það muna sennilega flestir eftir samnefndri mynd frá 1998 sem gerði nánast allt rangt. Þessi útgáfa Gareth Edwards leiðrétti flest þau mistök og gerði virkilega góða skrímslamynd sem sýndi Godzilla verðskuldaða virðingu. Godzilla á sér langa sögu og er af mörgum talinn konungur skrímslanna.

Eitt af því sem er svo skemmtilegt við hann í þessari mynd er að hann er ekki vondur og hann er ekki eitthvað snarvitlaust skrímsli. Godzilla er dýr og hagar sér svoleiðis. Ofan á það virkar hans sem einhverskonar jafnvægisafl náttúrunnar sem mér fannst mjög svalt. Hann lætur bíða svolítið eftir sér en biðin er vel þess virði. Þegar risastóru gaddarnir á bakinu rísa úr hafinu er ekki laust við að gæsahúð geri vart við sig.

Mér fannst stærsti gallinn við myndina vera Aaron Taylor-Johnson sem er fer með stærsta hlutverkið. Hann er allt í lagi en virkar á mig sem flatur og frekar týpískur hetju Ameríkani. Það hefði verið 100 sinnum betra ef Bryan Cranston hefði fengið að halda áfram og mæta Godzilla með okkur. Þessi eldist vel, enn sem komið er.

”The arrogance of men is thinking nature is in our control and not the other way around.”

Leikstjóri: Gareth Edwards (Monsters, Star Wars: Rogue One)