Það fer ekki á milli mála að grínleikarinn Will Arnett sé með ‘náttúrulega kómíska’ rödd sem virðist fullkomlega henta því að gera grín að Batman. Legó-Blaki stal a.m.k. senunni í tölvuteiknuðu snilldinni The Lego Movie sem sló í gegn fyrir nokkrum árum og landaði leikstjórum hennar tækifæri til þess að gera Han Solo mynd.

Í febrúar eigum við von á sóló-myndinni með þessum ómótstæðilega Legó-Batman, þar sem vissulega margir kunnuglegir munu dúkka upp – frá Robin (talsettum af Michael Cera til Jókersins og Justice League-meðlimana). Spenntust erum við þó fyrir því að sjá hvað Ralph Fiennes gerir við Alfred.

maxresdefault

Allt sem hefur komið nálægt DC merkinu seinustu árin hefur þótt sérlega umdeilt á meðal áhorfenda og aðdáenda (við vonum auðvitað öll það besta með Wonder Woman). En af sýnishornum að dæma fyrir þessa Legó-Batman mynd er alveg örugg og gild ástæða til þess að vera spenntur.

Þetta lítur út fyrir að vera frábært meðal gegn öllum geltandi alvarleikanum sem hefur tröllriðið ofurhetjugeiranum í áraraðir núna.