Á síðustu fimm vikum hafa staðið yfir töluverðar framkvæmdir í Laugarásbíói og hefur helstu græjum verið skipt út fyrir nýrri og betri. Allir salir eru nýir og endurbættir og eru sætin af allt öðrum gæðastandard, óneitanlega. Krúndjásnið þar er vissulega AXL-salurinn, sem býður upp á öfluga skerpu og nötrandi góða hljóðrás. Og á fremsta bekknu eru rafmagnshægindastólar með fótskemli.

AXL stendur annars fyrir Atmos-Luxury-Laser og endurspeglar það sem salurinn býður upp á. Dolby Atmos er eitt þróaðasta hljóðkerfið á markaðinum í dag, en það skilar flæðandi hljómi sem hægt er að staðsetja af nákvæmni og færa til hvert sem er í þrívíðu rými. Með Barco 4K Laser-myndvarpa býðst Íslendingum ein fullkomnasta sýningartækni sem fáanleg er í heiminum.

Að mati penna Bíóvefsins stendur nýi salurinn algjörlega undir væntingum (Blade Runner 2049 naut sín þar sérstaklega með dýnamískum hætti, og kraftmiklum mætti í sándinu). Alveg geggjað. Það var líka löngu kominn tími á nýtt skipan í minni sölunum, en nú eru betri sæti þar og röðun.

Við styðjum alltaf betri og þægilegri upplifun í bíósal, svo aðkoma andlitslyftingar þessa kvikmyndahúss er kærkomin, og ætti hressilega að sparka á eftir slakari bíóum landsins til að taka sig á.
Þau vita hver þau eru.