Eitt af því ljúfa við veturinn er að mikið af besta bíóúrvali sumarsins lendir á Blu-Ray um það leyti, og tvær af sterkari og eftirminnilegri myndum sumarsins (að mati gagnrýnenda og margra hér á vefnum) eru nýlentar á vídeói – og þá stöndumst við að sjálfsögðu ekki mátið að dreifa gleðinnni. Við ætlum að gefa heppnum aðilum myndirnar ásamt opnum miðum á Suburbicon, nýjasta verkið frá George Clooney og skrifað af sjálfum Coen-bræðrum.

Baby Driver og War for the Planet of the Apes gætu annars varla verið ólíkari bíómyndir (en báðar tvær sitja víst með nákvæmlega sömu einkunn á Rotten Tomatoes). En fyrir fólk sem þarf áminningu þá er sú fyrri nýjasta mynd breska leikstjórans Edgar Wright, og segir frá feimnum en færum flóttabílstjóra sem best fúnkerar í lífinu með heddfónin á og músíkina í botni. Hann „syncar“ alla flótta sína – og fleiri daglegar rútínur – við tónlistina sem hann velur eftir skapi eða aðstæðum. Við tekur stórskemmtileg, fyndin og hnyttin „óldskúl“ spennusaga sem sækir mikið í takta meistara á borð við Walter Hill.

Skemmst er frá því að segja að bílaatriðin eru geggjuð og sándtrakkið helbert æði. Mjög eiguleg mynd sem verður síbetri við hvert áhorf.

 


War for the Planet of the Apes lokar Apaplánetuþríleiknum þar sem Andy Serkis hefur mögulega skapað bæði einn allra besta „Mo-Cap“ karakter allra tíma, og gætt lífi í eina sterkustu bíópersónu seinustu ára, hann Caesar. Ferð hans hófst með Rise of the Planet of the Apes árið 2011 og hefur hún mikið magnast síðan með seinni tveimur innslögunum, og lokakaflinn er bæði átakanlegur, undarlega brútal en fallegur.

Myndin setur persónurnar í forgrunn og kemst áhorfandinn í haus þeirra allra og Caesars þá sérstaklega. Serkis ætti skilið Óskarstilnefningu fyrir þennan performans, svona loksins. War for the Planet of the Apes spilast nánast út eins og fullkominn and-blockbuster. Þríleikurinn í heild sinni er soddan gull. Dawn og War sérstaklega. Og hjálpi okkur hvað feldarnir og brellurnar verða grípandi í háskerpu.

 

Svo er það Suburbicon…

 

Með hinum tveimur myndunum fylgja – eins og sagt var – opnir bíómiðar á myndina. Sagan segir frá því hvernig klikkaðir hlutir fara af stað eftir að fækkar um einn í bænum Suburbicon. Glæpamenn ráðast inn á heimili Gardner-hjónanna og myrða húsmóðurina, en herra Gardner (leikinn af Matt Damon) lætur að sjálfsögðu ekki þar við sitja.

Clooney situr í leikstjórastólnum og fyrir utan Damon fara Julianne Moore og Oscar Isaac með önnur lykilhlutverk í myndinni.

Hér er trailerinn:

 

En aftur að leiknum…

Til þess að taka þátt þarftu ekki að gera annað en að senda póst á tommi@biovefurinn.is og segja hver þín uppáhalds Matt Damon mynd er, hvort sem hann er í aðalhlutverki, auka eða einfaldlega bara standandi einhvers staðar sem brúða tautandi sitt eigið nafn.*

Vinningshafar fá sendan póst 10. nóvember (sama dag og þessi sýning verður).

 

Lát svo heyra!

 

*Og já, þetta var tilvísun í Team America.