Hinir mörgu aðdáendur gömlu Gremlins myndanna geta andað léttar. Lengi hefur verið talað um að endurgera Gremlins (eða endurræsa) og hryllti eflaust mörgum við tilhugsunina um tölvugerða „endurhugsun“ af útlitinu á gömlu góðu hrekkjaljómunum.

En núna hefur því verið lýst yfir, samkvæmt kröfum og vilja Chris Columbus sem skrifaði fyrstu myndina, að myndin verði ekki endurgerð heldur hefur verið ákveðið að gerð verði ný Gremlins mynd sem verði hreinlega framhald af gömlu myndunum, en þó um leið eins konar endurræsing. Líkast til á svipaðan máta og Jurassic World var fyrir Jurassic Park seríuna. Zach Galligan, sem lék aðalhlutverkið í Gremlins 1 og 2 (nema auðvitað menn líti á Gizmo sem aðalhetjuna), uppljóstraði þessu á sýningu á fyrstu myndinni í London nýverið. Einnig sagði hann að nýr handritshöfundur hafi verið ráðinn til að skrifa myndina en nefndi þó ekki hver hann væri.

Þetta þýðir að ný Gremlins mynd, ef og hvenær sem hún lítur dagsins ljós, ætti vonandi ekki að vera algjört drasl og guðlast. Það að Galligan hafi verið að tala um þetta þýðir að hann muni öllum líkindum leika í myndinni þannig að við skulum vona að leikhópurinn samanstandi af blöndu af gömlum og nýjum andlitum. Við skulum allavega vona að gamli jálkurinn Dick Miller komi við sögu en síðan eru ýmsir aðrir leikarar úr myndunum sem gaman væri að sjá líka, þar má t.d. nefna Judge Reinhold, Corey Feldman og Robert Picardo. Einnig væri áhugavert að sjá hvort Phoebe Cates mun snúa sér aftur að kvikmyndaleik og koma fram í nýju myndinni.

gremlins

Helsta vonin er samt auðvitað bundin við hvort leikstjórinn Joe Dante muni snúa aftur bak við myndavélina þar sem stór hluti af því sem gerði gömlu myndirnar svona skemmtilegar var hans persónulegi stíll og sérviskulegi húmor. Dante hefur átt frekar köflóttan feril undanfarna tvo áratugi þannig að þetta gæti verið ágætis endurkoma fyrir hann.

Þetta virðist þó allt vera á byrjunarstigi sem stendur þannig að við skulum sjá hvað framtíðin ber í skauti sér, en það er alltaf gott að halda í vonina…