Myndir eiga möguleika á að halda sér vel og eiga við í mörg ár, jafnvel áratugi. Þær yfirstíga öldrun og verða tímalausar. Hins vegar getur það gerst að mynd eldist hrikalega illa, bæði hvað plotholur, sviðsmyndir og tæknileg atriði varðar. Undirrituð tók saman lista með gömlum ofurhetjumyndum (10 ára+) sem hreinlega sýna hrikalega öldrun og spurning að leggja þær til hliðar, eða á næsta öldrunarheimili. Ekki örvænta þó þar sem nostalgían nær oft að sigra og sumar myndir má geyma og horfa á aftur með jákvæðum augum.

 

Batman og Robin
Guð minn góður hvað voru þeir að spá? Nú játa ég að ég elskaði þessa mynd í æsku enda 7 ára þegar hún kemur út og má kalla mig óvita í bíómyndum. Ég horfði á hana margoft í bíói og enn oftar á spólu. Svo gerist það að ég hugsa rétt upp úr tvítugu hversu mikið ég væri til í að sjá Batman og Robin aftur….. það voru með þeim verstu mistaka sem ég hef gert á ævinni því nú hreinlega get ég ekki þessa mynd. Sagan er fáránleg, búningarnir slæmir, Mr. Freeze er gerður að athlægi og Batman er með kreditkort. Seriously, getur lögreglan ekki bara séð hver borgar reikninginn og áttað sig á að Batman er í raun Bruce Wayne? Uppáhalds ruglið mitt í þessari mynd er hins vegar þegar þríeykið er nýbúið að sigra Poison Ivy og verða að bjarga Gotham borg frá frystingu í flýti….. en fyrst: Búningaskipti!
Það fer ekki á milli mála í hvorn flokkinn við setjum þessa: Gleyma!

The Punisher (1989)
Betri Punisher myndin án efa enda gefin út á klassísku ári. Ólíkt 2004 útgáfunni á samnefndri mynd var ekki leyfilegt að hafa Frank Castle í hauskúpubolnum fræga en hún var þeim mun grimmari, blóðugri og fylgir myndasögunni mun betur. Með Dolph Lundgren í aðalhlutverkinu er ekki hægt að búast við úrvalsleik en það er svosem ekki það sem gerð myndarinnar snýst um. Þetta er fínasta afþreyingarmynd og því gott að GEYMA hana.

 

Daredevil
Það er alveg einstakt hversu margir leikarar fá aftur tækifæri til að leika nýja ofurhetju eftir fyrri mistök. Ben Affleck á þó ekki heiðurinn að þessari kvalarfulla kjánahrolli þar sem ég verð að kenna handritinu um. Restin las það bara og fór eftir fyrirmælum…. því miður. Atriðin með Elektru kvelja mig mest en þó sérstaklega þegar hún er ein að berjast við sandpoka… ég veit hún er rík með þjóna sem þrífur þetta upp eftir hana en come on! Var ekki hægt að nota eitthvað annað. Myndinni til varnar þá er Directors Cut skárra en hún gerir Bullseye engu betri og er hann enn alveg hundleiðinlegur. Kennum Colin Farrell um það. Ef ekki væri fyrir þættina um Djöfulinn væri niðurstaðan kannski önnur en þar sem þeir eru til og eru MUN betri þá er niðurstaðan einfaldlega: GLEYMA!

 

Fantastic Four 1 og 2
Ratty eins og leiðtoginn mikli þá eru þessar myndir afar gúmmíkenndar og bitlausar. Sagan er bleeh… og fyrirsjáanleg með leiðinlega plöstuðu illmenni. Það eina skemmtilega í henni var Johnny Storm sem kveikti nokkrar eldspítur sem héldu lífi í myndinni. Þegar uppi er staðið er myndin svo götótt að það er hægt að horfa í gegnum það rétt eins og persónuna Sue Storm og það áður en hún fékk ofurkrafta sína. Jessica Alba hefur talað opinskátt um vonbrigði sín á myndunum tveimur og erfiðleikana með samstarf sitt við leikstjórann en það gerir myndina engu betri. Verðlaunin segja allt sem segja þarf….. mestu vonbrigðin 2005 og versta handrit myndar með fjárhag yfir 100 milljónir dollara. Betra fyrir alla að GLEYMA henni.

 

Catwoman

Man einhver eftir þessari? Nei það er nú gott því ég vil helst bara GLEYMA henni. Kenni henni og Elektru um þessa löngu bið eftir góðri ofurhetjumynd með kvenhetju í fararbroddi.

 

Superman
Myndin verður fertug á árinu sem gefur soldið til kynna að brellurnar séu eitthvað ryðgaðar. Það sem ég hef samt oft átt erfitt með er hvernig Christopher Reeve leikur Clark Kent sem táning og við eigum bara að taka því. Fyrir utan þennan galla þá var Reeve hinn eini sanni Superman og á enn það hlutverk. Lois Lane fyrir mér er vel gerð persóna, framagjörn og ákveðin en samt eins og lítil raketta í samskiptum. Fílaða! Leikararnir eru allir að skila sínu í þessari mynd og 40 ár breyta því ekkert. Tónlistin er enn sú sama og vekur upp góðar nostalgíu tilfinningar þegar hún berst til eyrna margra. Superman er ekta upphafsmynd, upprunalega uppskriftin sem allir reyna að ná en það sem hún hefur fram yfir margar aðrar er hjartað. Það sést í myndinni á einhvern hátt hvað leikararnir, leikstjórinn, og allir sem unnu að myndinni ætluðu að skila af sér góðu verki þar sem þetta var mynd um Amerísku þjóðhetjuna. Hún er einfaldlega klassík og því nauðsynlegt að GEYMA og varðveita. En…….

Superman IV
Já fyrstu 3 myndirnar eru vel aldraðar en þær hafa sinn sjarma og eru komnar í klassíkina. A quest for peace hins vegar er myndin sem hefði ekkert átt að koma, oftast eru þríleikir bara nóg. Christopher Reeves talaði sjálfur um að skortur á fjármagni væri orsökin fyrir slæmum tökum, hrikalegum brellum og plottholum. Hér er hægt að læra mikilvæga lexíu! Ef fjármagnið er lítið þá sparast meiri peningur á því að sleppa því að gera myndina og halda smá virðingu. Ég held það sé bara samningur meðal allra jarðarbúa um að þessari mynd skal GLEYMA!

 

Teenage Mutant Ninja Turtles
Skjaldbökurnar góðu með listrænu nöfnin hafa fengið alveg nýtt útlit í nýjustu myndum sínum en það er ekki sami sjarmi og í gömlu myndunum. Í gömlu myndunum var hvorki heimurinn né heimaborg fjórmenninganna í hættu. Hættan var létt og lítil, ofurmennið klæddist járni og áli úr sorphaug og brandararnir ódýrari en fimmkall. Vissulega var útlitið á þeim ófullkomið, jafnvel hallærislegt og leikurinn fékk D í einkunn þá kallar hún eitthvað svo hlýjar minningar að útkoman er einföld: Geyma!

 

Mighty Morphin Power Rangers: The Movie
Enn ein myndin sem ég sá í barnæsku og átti svo góðar minningar um en við endurhorf á fullorðinsárum er hún gjörsamlega ónýt fyrir mér. Illmennið er hræðilegt, samtölin gjörsamlega galtóm og bardagahreyfingar hetjanna þegar þau standa og ræða saman er fáránlega pirrandi. Þessi mynd hefur elst alveg hræðilega og var eitt sinn gömul nostalgíumynd en ekki lengur…. því miður. Myndi persónulega segja fólki að geyma hana lengst inn í skáp og GLEYMA svo í hvaða skáp til að forðast það að skemma góðar minningar.

Eru til fleiri myndir sem ykkur finnst vert að geyma eða nauðsynlegt að gleyma?