Eitt sem allir vita orðið er að eftir hverja Marvel mynd leynist eitt (stundum tvö) atriði sem er oftast smá kitl fyrir næstu mynd/ir. Þar sem Marvel og Star Wars eru í eigu Disney mátti alveg búast við því að það yrði eitt loka atriði eftir kreditlistann sem yrði auglýsing fyrir Episode 8 eða Rogue One: A Star Wars Story. Sérstaklega þegar hugsað er til þess að Disney ætlar sér að gera Star Wars myndir alveg þangað til að fólk fær leið á þeim.

J.J. Abrams, leikstjóri The Force Awakens, hefur hins vegar tilkynnt að það muni ekkert slíkt eiga sér stað í nýju myndinni. Áhorfendur munu geta staðið örugg upp úr sætunum sínum án þess að vera hrædd um að þau séu að missa af eitthverju spennandi sem sýnir hvað koma skal. Þegar kredit listinn byrjar þá er myndin einfaldlega búin. Hvort að fólk muni geta staðið upp úr sætinu sínu vegna hamingju verður hinsvegar önnur spurning.

Star Wars er væntanleg í kvikmyndahús 17. desember. Við minnum alla sem eiga miða á Nexus sýninguna á búningakeppnina sem er á undan.