Sjálfur Arnold Schwarzenegger.

Nýja Predator-myndin í umsjón leikstjórans Shane Black er komin á gott ról í framleiðslu. Tökur hófust í febrúar og ratar lokaútkoman í kvikmyndahús um það leyti á næsta ári. Aðdáendur hafa hins vegar töluvert velt því fyrir sér hvort bíði þeim einhver óvænt uppákoma í formi one-linera og fyrrum hasarstjörnu.

Shane Black hafði staðfest að Schwarzenegger þætti ólíklegur til þess að mæta í cameo en gaf engin skýr svör um það. Hann hafði þó staðfest að myndin hans, The Predator, myndi ekki eiga sér mikla tengingu við upprunalegu myndina né framhöld hennar.

Nú er orðið endanlega staðfest að gamli hasarkóngurinn verði fjarri góða gamni nýju myndarinnar. Ástæðan?
Ja… eins og hann segir sjálfur í spjalli við Yahoo:  „They asked me, and I read it, and I didn’t like it“.

Bætti hann við að ef stæði til að endurskrifa handritið (sem ætti að vera orðið of seint á þessum tímapunkti) eða stækka hlutverkið, myndi hann endurskoða möguleikann. En eins og staðan er – og verður – þá hefur The Predator ekki blessun höfðingjans, sem þessa dagana er fullur bjartsýni um að Tortímandinn eigi enn eitthvað líf eftir í sér.

Með helstu hlutverkin í The Predator fara Boyd Holbrook, Sterling K. Brown, Olivia Munn, Keegan-Michael Key, Trevante Rhodes (úr Moonlight) og Jacob Tremblay (úr The Room). Þau ættu að spjara sig fínt á Ahnulds.