Stutta útgáfan:
Disney ætlar sér ekki að stíga feilspor og gæti Zootropolis vel verið skemmtilegata teiknimyndin sem við munum sjá á þessu ári. Hún bætir upp alla smágalla sína með frábærum húmor.

8

 

 

Langa útgáfan:

Gæðin hjá Disney-teiknimyndum eru komin á þann stað að ég verð spenntari fyrir þeim heldur en Pixar nú til dags. Ég veit ekki hvað gerðist þarna hjá Disney en það er allt á uppleið hjá þeim í ferskleikanum sem hefur akkúrat farið minnkandi í hinni deildinni. Zootopia er án efa ein hugmyndaríkasta, flottasta og alveg langt um fyndnasta teiknimynd sem ég hef séð lengi. Segir sig kannski sjálft en myndin er best séð með ensku tali. Það eru margir brandarar sem þarna tapast í þýðingunni.

Handritið er snjallt, hnyttið og fer glæsilega fyrir því innan um smáatriðaríka grafík, meiriháttar litríka umgjörð og hönnun. Bæði eru samtöl persóna brjálæðislega fyndin og koma umhverfin í kringum stanslaust á óvart. Ég er alveg viss um að ég hafi ekki tekið eftir meira en helmingnum sem var að gerast í bakgrunninum á mörgum atriðum. Heimurinn sem var skapaður í kringum myndina er gríðarlega stór, útpældur og merkilegur. Borgin sjálf er glæsilega hönnuð og brjálæðislega lífleg.

Þegar líður á myndina og þú sérð hvað þú ert að sjá lítið af þessum annars gríðarstóra heim líður þér dálítið eins og þú sért aftur orðin krakki og sért heima hjá vini þínum sem leyfir þér bara að sjá smá hluta af dótinu sínu. Um leið og hann er byrjaður að sýna þér hversu mikið af ógeðslega skemmtilegu dóti hann á þá læsir hann herberginu og segir að tíminn sé búinn. Þannig leið mér þegar kreditlistinn rúllaði.

videothumbnail_zootopia_officialtrailer_disney_a4d0f4ce

Okkur er nefnilega hent inn í þennan stóra heim sem er troðfullur af lifandi persónum og baksögum sem við rétt heimsækjum. Við fáum snögg innlit í mismunandi staði í borginni, sem er samnefnd kvikmyndinni, og skilur myndin alltaf eftir nægilega mikla forvitni á hverjum stað til að láta mann vilja sjá aðeins meira. Efniviðurinn sem þeir hafa skapað í þessum heim jafnast á við allavega tvær framhaldsmyndir.

Söguþráðurinn fer á mjög klisjukenndar slóðir, og tilheyrir sér klassískar buddy-cop formúlur. Það er dálítið eins og handritshöfundarnir viti það og hafi eytt öllum tímanum sínum í að skapa þennan stóra skemmtilega heim, fyndnar samræður, jákvæð gildi, stereótýpugrín og skemmtilega karaktera og áttað sig svo á því að það vantaði söguþráð. Í kjölfarið hafi þeir svo opnað klisjubókina og notað nokkrar sem allir kannast við. Handritið gerir meira að segja grín að því grimmt þar sem foreldrar söguhetjunar hvetja hana til þess að gefast upp og sætta sig bara við aðstæður alveg frá byrjun.

zootopiainternationalsocial

Raddleikararnir eru ekki af verri kantinum. Idris Elba fer á kostum sem hinn eiturharði lögreglustjóri og J.K Simmons leikur í annari teiknimyndinni á þessu ári (Kung Fu Panda 3). Jason Bateman er fínn en betri á móti henni er Ginnifer Goodwin sem orkuríka aðalsöguhetjan Judy Hopps, krúttkanína með stálharðan metnað.

Boðskapurinn fyrir krakkana er auðvitað til staðar um að dæma ekki aðra út frá útliti og að elta draumana þrátt fyrir andstæður osfr. Zootropolis stráir samt helling þarna inn fyrir eldri aðdáendur og hentar því myndin bókstaflega öllum og ömmum þeirra. Heimurinn í henni er svo heillandi að fleiri teiknimyndir ættu að taka hana til fyrirmyndar.