Stutta útgáfan:
Free Fire er ágætis “flippmynd” sem þó skortir dýpt og skilur lítið eftir sig. Leikararnir standa sig vel og húmorinn er góður en kvikmyndagerðin mætti vera sterkari. En fyrir þá sem fíla myndir af þessu tagi er þetta fín skemmtun.

 

 

 

Langa útgáfan:

Breski leikstjórinn Ben Wheatley hefur gert sex myndir á undanförnum átta árum en það hefur tekið hann smá tíma að komast yfir í meginstrauminn. Hann virðist vera að detta inn í hann núna og má segja að nýjasta mynd hans, Free Fire, sé hans aðgengilegasta til þessa. Ekki að hinar myndirnar séu einhver abstrakt furðulegheit en þessi er hans stjörnufylltasta og líflegasta til þessa.

Það er valinn maður í hverju rúmi í leikhópnum: Brie Larson, Cillian Murphy, Sharlto Copley, Armie Hammer, Jack Treynor og fleiri góðir. Myndin segir frá hópi vafasamra einstaklinga sem eru að stunda vopnaviðskipti í yfirgefnu vöruhúsi í Boston á 8. Áratugnum. En eitthvað fer úrskeiðis við söluna og fljótlega eru allir farnir að skjóta á hvern annan og hópurinn fastur í sjálfheldu í vöruhúsinu.

Í stuttu máli sagt er þessi mynd lítið meira en einn langur skotbardagi. Hópur af vafasömum einstaklingum sem vita ekki hverjum skal treysta og allir of særðir til að geta flúið. Free Fire mætti segja að sé algjör stílæfing hjá Wheatley (og meðhandritshöfundi hans og eiginkonu, Amy Jump) sem sver sig í ætt við myndir Quentin Tarantino. Eða öllu heldur mætti frekar segja að hún sverji sig í ætt við allar wannabe Tarantino myndirnar sem komu út á 10. Áratugnum (myndir eins og t.d. Boondock Saints og Things To Do in Denver When You´re Dead). Hún gerist líka á 8. Áratugnum og má bera hana saman við glæpamyndir þess tíma, t.d. myndir Sam Peckinpah eins og The Getaway og The Wild Bunch.

Leikararnir standa sig flestir vel og þar ber helst að nefna Sharlto Copley sem fer á kostum sem léttgeggjaður Suður-Afrískur glæpaforingi (Copley ýkir hreiminn sinn viljandi á skemmtilegan hátt) og einnig er Armie Hammer skemmtilega lúmskur sem eins konar “middle-man”. Það er helst leikhópnum að þakka að Free Fire verður hin ágætasta skemmtun. En málið er einfaldlega að myndin nær ekki að verða neitt mikið meira en einföld og flippuð stílæfing og lítið framúrskarandi við kvikmyndagerðina.

Free Fire er ekki mynd sem þurfti að vera einhver djúpstæð snilld, hún þurfti bara að vera snjöll og fyndin og hún er það oft en samt ekki alveg jafn snjöll og hana langar að vera. Myndin er undir 90 mínútur að lengd en tekst samt að verða einhæf og endurtekningarsöm á endanum. Wheatley gengur ekki nógu langt í að leika sér með formið auk þess er kortlagning sögusviða í myndinni ekki nógu skýr. Það er oft erfitt að átta sig á hver er hvar og hver skaut hvern. Eflaust er það viljandi að einhverju leyti þar sem aðstæðurnar eru kaótískar en það getur samt ekki alltaf gengið sem afsökun fyrir öllum ruglingnum. Þetta verður líka til þess að maður verður aldrei sérlega spenntur auk þess sem það er erfitt að vera sama um þessa karaktera, þetta eru meira og minna allt skíthælar og á pappír frekar klisjukenndar týpur. Leikararnir gera það sem þeir geta og ná að lyfta persónunum upp og sum “mannlegri” augnablikin þegar þeir eru að hlúa að sárum sínum virka mjög vel.

Free Fire virkar samt að mestu ágætlega á meðan hún varir og fyrir þá sem hafa gaman af svona myndum er hægt að gera margt verra. Hún er mjög fyndin á köflum og oft skemmtilega brútal. En það hefði vel mátt gera enn meira með efnið.