Knattspyrna er mikið grafin inn í meðvitund íslensku þjóðarsálarinnar, en til að koma íþróttinni aðeins betur í kollinn á harðkjarna bíófíklum hefur undirrituð hér tekið saman smá lista með skemmtilegustu og eftirminnilegustu fótboltamyndunum sem ég hef rekist á í gegnum tíðina.

Látið í ykkur heyra ef þið vitið um fleiri.

 

Goal!: The Dream Begins (2005) og Goal! II: Living the Dream (2007)

Skemmtileg saga af hinum efnilega Santiago Munez sem vill ekkert annað en að spila fótbolta. Því miður fyrir hann þá býr hann í Bandaríkjunum, en eftir að ókunnugur maður segir honum að fara til Bretlands og reyna fyrir sér, hefst ævintýri hans og leiðin á toppinn. Það er þó ekki gefins að komast inn í liðin, ekki einu sinni í Newcastle, þannig hann verður að styrkja sig, læra að spila enskan bolta og hætta að einoka boltann til að ná markmiðum sínum. Framhaldið byggir mestmegnis á þvi sama, nema við kynnumst líka hinni hlið fótboltans, fjárhagslegu hliðinni.

 

Game of their Lives (2005)

Ellefu menn og eitt tækifæri til að sýna heiminum… að Bandaríkjamenn geta ekki sagt „football“. Þetta er mjög fróðleg mynd sem er lauslega byggð á fyrstu skrefum bandaríska landsliðsins í fótbolta í keppni á alheimsvísu. Meðal leikara eru Patrick Stewart og Gerard Butler, sem gefa myndinni smá extra. Þetta er ekta „underdog“ saga með fínum fótboltasenum, þrátt fyrir það að notaðir hafi verið blýþungir leðurboltar á þessum tíma, nánar tiltekið um 1950.

 

Mean Machine (2001)

Áður en Vinnie Jones varð að frægum leikara, þá var hann fótboltaleikmaður og þekktur fyrir að vera afar skapbráður á vellinum. Hann þurfti því ekki að sækja innblásturinn langt fyrir persónu sína hér sem lendir í því að þurfa að sitja inni eftir líkamsáras. Sem betur fer má sparka í bolta innan fangelsisins og ákveðið verður að halda æfingaleik á milli fanga og fangavarða, sem verður skiljanlega með grófari hætti. Mun betri en The Longest Yard (Sandler útgáfan þ.e.a.s – Burt Reynolds útgáfan er alveg á svipuðu pari).

 

United (2011)

Sannsöguleg saga af “Busby Babes” og hræðilegum atburði sem skók fótboltaheiminn árið 1958. Myndin segir frá hinum efnilega Bobby Charlton sem reynir allt til að komast í byrjunarlið Manchester United. Aðstoðarþjálfarinn Jimmy Murphy, leikinn af David Tennant, ákveður að gefa Charlton tækifæri og þjálfar hann í það að verða einn sá besti sem sést hefur sparka bolta. Það er líka eins gott því liðið lendir í miklum hremmingum og þarf að sýna hvað í því býr til að halda sér á sigurbrautinni. Myndin er þrælgóð og sýnir okkur mikilvægi þess að sinna grasrótarstarfinu og blanda saman reyndum leikmönnum og nýjum, en eltast ekki alltaf við að kaupa titla.

 

The Two Escobars (2010)

Áhugaverð heimildarmynd um tvo ólíka menn sem hafa haft ólík en afdrífarík áhrif á land og þjóð Kólumbíu. Annar þeirra leiddi landslið sitt á heimsmeistaramótinu í fótbolta árið 1994 meðan hinn háði eiturlyfjabardaga á götunum. Líf þeirra fléttaðist saman á ótrúlega vegu sem markaði stórt spor og endalok beggja. Merkileg og sönn saga sem skilur áhorfendur eftir agndofa og vitrari eftir 104 mínútna áhorf.

 

Bend it like Beckham (2002)


Undirrituð elskar þessa mynd af þremur ástæðum:

1. Beckham
2. Fótbolti
3. Girl power

Hún kennir okkur öllum að lífið er enginn dans á rósum, en til að lifa því til fulls þarf hver og einn að standa á sínu og ákveða eigin örlög. Tímalaus klassík og algert skylduáhorf fyrir EM.

 

Fever Pitch (1997)

Nei ekki hafnaboltabullið með Barrymore og Fallon, heldur fótboltarullan með Colin Firth. Byggð á samnefndri bók um fótboltafíkil sem getur ekki valið á milli þess að elska eina konu eða dá ellefu karlmenn. Hressandi og fínasta afþreying sem sýnir og sannar enn einu sinni að breskar myndir eru þeim mun betri en amerísku endurgerðirnar. Ég hreinlega skil ekki af hverju fleiri vita ekki af þessari!

 

The Damned United (2009)

Man einhver eftir því þegar Leeds var í úrvalsdeildinni? Eða vann titla? Nei, ekki ég heldur, en þessi mynd er byggð á góðu gengi liðsins og því sem gerðist eftir það, þökk sé stjóra þess, Brian Clough. Hér er soldið spilað á pólitíkina í fótbolta, en leikaraliðið er úr eigin úrvalsdeild. Þar á meðal eru Michael Sheen, Jim Broadbent og Timothy Spall. Enn ein bresk mynd á léttum nótum.

 

Shaolin Soccer (2001)

Kung fu og fótbolti hljómar eins og hrikaleg blanda… og þetta er svo sannarlega hrikalegt…. en samt svo fyndið. Ef ykkur vantar eina fáránlega til að koma ykkur í gott skap eða til að skilja af hverju asísk lið geta lítið í fótbolta, þá er þetta rétta myndin.

 

Class of ’92 (2013)

Ókei, algerlega bara fyrir okkur Manchester United aðdáendurna, en þessi heimildarmynd með fortíðarþrá er svo skemmtileg að hún fær að fljóta með.

 

Myndir sem komust næstum því á listann:

She’s the Man
Victory (Stallone og Caine að sparka í bolta með Pelé)
Little Lion
Strákarnir okkar