ht_christopher_nolan_nt_120706_mnSamkvæmt The Hollywood Reporter er ekki bara í umræðunni að endurgera minnisleysisþrillerinn sem skaut Christopher Nolan í sviðsljósið, heldur er víst búið að ganga frá dílnum.

Fyrirtæki að nafni AMBI Pictures, rekið af Andreu Iervolino og Moniku Bacardi, eignaðist réttinn á Memento eftir að hafa tryggt sér safnið á vegum dreifingarkompanísins Exclusive Media Group, en þar eru innifaldir allt að 400 titlar. Þeirra á meðal eru t.d. Sliding Doors, Donnie Darko, Cruel Intentions og Rush.

Monika Bacardi tilkynnti með stolti að Memento hafi borið af sem titillinn sem var valinn, og með heljarinnar styrk og fjármagn að baki verður lítil fyrirstaða að landa glænýju Memento-eintaki í höfn áður en áratugnum lýkur.

Samkvæmt yfirlýsingu frá Bacardi segist hún alveg gera sér grein fyrir þeim vægast sagt háu kröfum sem endurgerðin stendur frammi fyrir, enda má ekki gleyma því að Memento græjaði Nolan Óskarstilnefningu fyrir besta handrit og hlaut hún einnig tilnefningu fyrir bestu klippingu. Myndin situr í 45. sæti yfir bestu myndir allra tíma á IMDb (hvað sem það nú þýðir í raun), trónir með 92% á RT og vill undirritaður meira að segja sjálfur skjóta því inn að þetta er enn best heppnaða mynd leikstjórans.

Memento-2000-720p-baranfilmÞetta voru hughreystingarorð Moniku til aðdáenda myndarinnar:

„Memento er meistaraverk sem heldur áhorfendum sífellt giskandi, ekki bara á meðan myndinni stendur heldur eftirá líka, sem segir eitt eða annað um djörfu nálgun hennar. Það er okkar markmið að viðhalda upprunalegu sýn leikstjórans og framleiða mynd sem er eins spennandi, ögrandi og íkonísk og frummyndin. Það er mikil ábyrgð að útbúa eitthvað sem á skilið samanburð við fagmennsku frumútgáfunnar en við erum gríðarlega spennt og ákveðin í því að vekja þetta púsluspil til lífs aftur í hugum kvikmyndaáhugamanna.“

 

Fleiri fréttir af þessari framleiðslu ættu að birtast á næstunni.

Mundir þú annars segja að Bacardi hafi sannfært þig um að þetta gæti virkað, eða seldi hún þig frekar kannski bara hugmyndina að kíkja á Memento aftur?

 

Fyrir viðbrögð frá undirrituðum, smellið hér.